Innlent

Guðni sendir samúðarkveðju til Breta

Atli Ísleifsson skrifar
Frá neðanjarðarlestarstöðinni London Bridge.
Frá neðanjarðarlestarstöðinni London Bridge. Vísir/afp
Guðni Th. Jóhannesson forseti  sendi í morgun samúðarkveðju sína og íslensku þjóðarinnar til Elísabetar II Bretadrottningar vegna hryðjuverksins sem framið var í Lundúnum í gærkvöldi.

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta segir að í kveðjunni segi forseti meðal annars að enn á ný liggi saklausir borgarar í valnum eftir ódæði öfgamanna.

„Íslendingar samhryggist af öllu hjarta þeim sem nú sakna látinna ástvina og óski þeim sem liggja særðir á sjúkrahúsum eftir árásina góðs bata. Um leið vottum við öllum þeim sem komu til bjargar á ógnarstundu aðdáun okkar og virðingu.

Hryðjuverk væru ógn við frjáls og opin lýðræðissamfélög og brýnt að þjóðir heims stæðu saman og ynnu að því með öllum tiltækum ráðum að frjálsum, friðelskandi borgurum stafi ekki stöðug ógn af grimmdarverkum öfgamanna,“ segir í tilkynningunni frá forsetaembættinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×