Erlent

Ólýsanlegar aðstæður í Grenfell-turni: Talið að allt að sjötíu manns hafi látið lífið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan hefur birt myndir innan úr turninum sem sýna vel eyðilegginguna sem eldurinn olli.
Lögreglan hefur birt myndir innan úr turninum sem sýna vel eyðilegginguna sem eldurinn olli. vísir/epa
Talið er að allt að sjötíu manns hafi farist í brunanum í Grenfell-turni í vesturhluta London aðfaranótt miðvikudagsins 14. júní. Þetta kemur fram í frétt BBC þó að lögreglan hafi ekki formlega gefið út að fleiri hafi látist en 58.

Samkvæmt BBC er talið öruggt að sú tala muni hækka og að yfirvöld sendi frá sér tilkynningu þess efnis í dag. Það mun þó taka vikur að bera kennsl á alla þá sem létust og ef til vill verður ekki hægt að bera kennsl á þá alla.

Að minnsta kosti 58 létust í brunanum en BBC segir að talið sé að allt að 70 manns hafi farist.vísir/epa
Lögreglan birti í fyrsta skipti í gær myndir innan úr turninum. Við blasir gríðarleg eyðilegging en 24 hæðir voru í turninum með 120 félagslegum íbúðum. Turninn gjöreyðilagðist í eldinum og ljóst er af myndunum að dæma að aðstæður til björgunarstarfs hafa verið afar erfiðar.

„Það er mjög mikilvægt að allir geri sér grein fyrir hversu erfiðar aðstæður björgunaraðilar hafi verið við í Grenfell-turninum þar sem þeir hafa verið að leita að fólki, bjarga því og koma þeim til ástvina sinna. [...] Þessar aðstæður eru í raun ólýsanlegar vegna eyðileggingarinnar og þar af leiðandi mun það taka okkur margar vikur að ljúka þessu verkefni,“ segir Stuart Cundy hjá lögreglunni í London.

120 íbúðir voru í Grenfell-turni.vísir/epa
Eldsupptök liggja ekki fyrir en í gær var greint frá því að klæðningin sem var utan á húsinu hafi verið ólögleg í Bretlandi. Kenningar eru uppi um að klæðningin hafi orsakað það hversu hratt bruninn breiddist út en það hefur ekki enn fengist staðfest.

Sakamálarannsókn er hafin á brunanum sem beinist meðal annars að því hvort að farið hafi verið eftir byggingarreglugerðum þegar ráðist var í endurbætur á turninum fyrir nokkrum árum.


Tengdar fréttir

Klæðningin á Grenfell-turninum var bönnuð á Bretlandi

Fjármálaráðherra Bretlands segir að klæðningin sem var utan á Grenfell-turninum sem brann á miðvikudag sé ólögleg í Bretlandi, Evrópu og Bandaríkjunum. Að minnsta kosti 58 eru látnir eftir eldsvoðann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×