Erlent

SÞ: Gífurlegt mannfall í loftárásum Bandaríkjanna og bandamanna í Raqqa

Kjartan Kjartansson skrifar
Hermenn við húsarústir í Raqqa þar sem umsátursástand ríkir.
Hermenn við húsarústir í Raqqa þar sem umsátursástand ríkir. Vísir/EPA
Stríðsglæparannsakendur Sameinuðu þjóðanna segja að loftárásir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra á hryðjuverkasamtökin Ríki íslams í sýrlensku borginni Raqqa hafi valdið „gífurlegu mannfalli“. Hundruð óbreyttra borgara eru sögð hafa fallið frá því í mars.

Sýrlenski lýðræðisherinn hefur ráðist inn í Raqqa úr þremur áttum undanfarið.  Orrustan um borgina hefur leitt til þess að 160.000 borgarbúar hafa flúið hana, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Sameinuðu þjóðirnar áætla að 50.000 til 100.000 óbreyttir borgarar séu enn fastir í borginni.

Paolo Pinheiro, formaður rannsóknar SÞ á stríðinu í Sýrlandi sagði að mjög hafi fjarað undan Ríki íslams að undanförnu og að sókn Lýðræðishersins í Raqqa geti frelsað þúsundir manna undan ógnarstjórn samtakanna.

Varaði hann hins vegar við því að óbreyttir borgarar mættu ekki líða fyrir það að búa nærri þeim stöðum þar sem vígamenn Ríkis íslams halda sig.

„Við höfum sérstaklega tekið eftir  því að loftárásir hafa færst í aukana sem greiða leiðina fyrir Sýrlenska lýðræðisherinn og hafa ekki aðeins leitt til gífurlegs mannfalls heldur flótta 160.000 óbreyttra borgara sem eru á hrakhólum innanlands,“ sagði Pinheiro í ávarpi við mannréttindaráð SÞ í dag.


Tengdar fréttir

Orrustan um Raqqa er hafin

Talsmaður hersveita Kúrda segir að sótt sé að Raqqa út austri, vestri og norðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×