Erlent

Mannskaði í stórbruna í Lundúnum

Atli Ísleifsson skrifar
Tugir manna hafa verið fluttir á sjúkrahús eftir eldsvoðann í háhýsinu.
Tugir manna hafa verið fluttir á sjúkrahús eftir eldsvoðann í háhýsinu. Vísir/EPA
Að minnsta kosti tólf eru látnir eftir að mikill eldur kom upp í íbúðahúsi í norðurhluta Kensington-hverfis í Lundúnum í nótt.

Byggingin sem um ræðir er Grenfell Tower og er í norðurhluta Kensington. Byggingin er 24 hæða með 120 íbúðum og búa þar milli 400 og 600 manns.

Tilkynning um brunann barst klukkan 00:54 að staðartíma, eða 23:54 að íslenskum tíma, og var slökkvilið mætt á staðinn innan við sex mínútum síðar. Alls voru um fjörutíu slökkviliðsbílar á vettvangi og á þriðja hundrað slökkviliðsmanna.

Eldurinn virðist hafa kviknað á fjórðu hæð hússins og leitaði fljótt upp á næstu hæðir. Sjónarvottar á jörðu niðri segjast hafa séð fólk í gluggum byggingarinnar þar sem það hrópaði á hjálp og barði í glugga. Einnig bárust fréttir af fólki sem sleppti börnum sínum út um glugga á efri hæðum til fólks á götunni.

Alls eru 74 manns á sjúkrahúsi og er ástand tuttugu þeirra sagt alvarlegt. Enn er verið að leita að fólki í byggingunni, og má ljóst vera að mun fleiri hafa látið lífið í brunanum en þeir tólf sem tilkynnt hefur verið um.

Byggingin var reist árið 1974 og voru umfangsmiklar endurbætur gerðar á henni á síðasta ári.

Fylgjast má með útsendingu Sky News að neðan, og hvernig framvindan var í vaktinni, þar fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×