Umfjöllun: Ísland - Brasilía 0-1 | Marta gerði gæfumuninn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir bar fyrirliðabandið í dag og mun gera á EM í Hollandi.
Sara Björk Gunnarsdóttir bar fyrirliðabandið í dag og mun gera á EM í Hollandi. vísir/anton
Ísland tapaði með minnsta mun, 0-1, fyrir Brasilíu í síðasta vináttulandsleik kvennalandsliðsins fyrir Evrópumótið í Hollandi sem hefst um miðjan næsta mánuð. Brasilíski töframaðurinn, Marta, skoraði eina mark leiksins í síðari hálfleik.

Frammistaða Íslands í leiknum var til mikillar fyrirmyndar. Ef allt hefði verið eðlilegt hefði liðið verið yfir í hállfeik, en öflug sókn og mark í síðari hálfleik gerði út um leikinn. Mikil gæði í brasilíska liðinu.

Það var ljóst að frá upphafi að verkefnið yrði erfitt fyrir íslenska landsliðsins gegn einu af besta liði heims í dag. Fyrir leik bárust fregnir af því að fyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir hefði slitið krossband í lok maí og hún mun því ekki leika með liðinu á mótinu í sumar. Mikill missir þar.

Íslenska liðið var frábært í fyrri hálfleik. Fyrsta færið kom eftir innan við hálfa mínútu þegar Agla María Albertsdóttir fékk kjörið tækifæri til að koma Íslandi yfir, en ekki tókst það. Leikurinn var frábærlega upp settur af þjálfarateyminu og unnum við boltann oftar en ekki á góðum stöðum og sköpuðum okkur góð færi.

Ekki tókst að skora í fyrri hálfleik, en frammistaðan var gjörsamlega frábær. Leikkerfið var að virka gífurlega vel, Fanndís leiddi sóknarleikinn og fór á kostum í hvert sinn sem hún fékk boltann. Miðjan hélt vel og fyrri hálfleikurinn gaf virkilega góð fyrirheit fyrir síðari hálfleikinn þar sem Brassarnir voru í stökustu vandræðum með íslenska liðið.

Í síðari hálfleikinn var svipað uppi á teningnum, en þá var Brasilía ívið meira með boltann. Íslenska liðið var þó frábærlega skipulagt og fékk liðið ekki mörg færi á sig. Ef þetta heldur áfram svona á EM í Hollandi í sumar eru þær í ágætis málum, en varnarleikurinn var góður.

Stelpurnar okkar fengu ekki jafn mörg færi í fyrri hálfleik og þeim síðari, en þó fengum við tvo til þrjú færi til þess að komast yfir. Brasilía skoraði fyrsta og eina mark leiksins á 67. mínútu þegar Marta fékk boltann inn fyrir vörnina og setti boltann í klofið á Guðbjörgu og inn.

Mark Mörtu var eina mark leiksins, en stelpurnar geta vel við unað. Frammistaðan var virkilega góð. Að tapa naumlega og mögulega ósanngjarnt fyrir einu af besta liði heims er ekkert til að skammast sín fyrir.

Afhverju vann Brasilía?

Einstaklingsgæði leikmanna eins og Mörtu skila sér í mörkum. Hún hefur spilað á hæsta stigi knattspyrnunnar svo lengi og þegar hún fær svona tíma og pláss þá einfaldlega skorar hún úr svona færum. Ísland fékk betri færi í leiknum, en einfaldlega nýtti þau ekki.

Brasilíska liðið er afar vel spilandi og með marga flinka leikmenn í sínum leikmannahóp. Þær hafa spilað stóra leiki undanfarin ár og leikmenn kunna að loka leikjum eins og þessum, eins og þær gerðu á Laugardalsvelli í kvöld.

Hvað gekk illa?

Ísland gekk illa að troða boltanum í netið. Þær fengu fjölmörg færi til þess að skora, en allt kom fyrir ekki og skrautlegur markvörður Brasilíu, Barbara, endaði á því að halda hreinu. Hún kom sér oft á tíðum í vandræði með athyglisverðum sendingum út úr markinu.

Í síðari hálfleik virtist einhver kraftur vera úr íslenska liðinu og þeim gekk ekki eins vel að spila sig í hættulegri færi eins og í fyrri hálfleik. Einhver vindur virtist úr liðinu síðasta stundarfjórðunginn sem er skiljanlegt enda var liðið búið að hlaupa úr sér allt vit, slík var baráttan og vinnslan.

Hverjar stóðu upp úr?

Það er erfitt að taka einhverja eina eða tvær út úr þessum leik hjá feykigóðu liði Íslands. Fanndís Friðriksdóttir var eins og oft áður öflugust í sóknarleik Íslands, en það kom nánast alltaf eitthvað út úr því þegar hún fékk boltann, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn hélt vel og 3-4-3 kerfið virkaði eins og í sögu.

Sara Björk Gunnarsdóttir er þekkt stærð inn á miðju Íslands og Agla María Albertsdóttir var að koma sér í færin. Næst þarf hún bara að skora úr þeim. Annars voru allir leikmenn Íslands í góðum gír og einnig var gaman að sjá varamennina sem komu inn á. Þeir stimpluðu sig vel inn í leikinn eins og leikmennirnir sem byrjuðu. Liðsheild í lagi.

Hvað gerist næst?

Þetta var síðasta verkefni íslenska liðsins fyrir mótið stóra í Hollandi í sumar. Fyrsti leikurinn er eftir rétt rúmlega einn mánuð gegn feykisterku liði Frakklands og þetta gefur heldur betur góð fyrirheit fyrir veru okkar í Hollandi í næsta mánuði.

Liðið er til alls líklegt ef það verður með þennan dugnað, baráttu og liðsheild að leiðarljósi. Í kvöld voru allar tilbúnar að hlaupa fyrir hvor aðra, tækla fyrir hvor aðra og bakka félagann upp. Þannig á það að vera og vonandi verður sama uppi á teningnum þegar liðið mætir til Hollands eftir rúman mánuð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira