Erlent

Íran sendir hundruð tonna af mat til Katar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Menn í stórmarkaði í Doha, höfuðborg Katar, í gær.
Menn í stórmarkaði í Doha, höfuðborg Katar, í gær. Vísir/afp
Írönsk yfirvöld hafa sent fjórar flugvélar af mat til Katar en yfirvöld þar í landi reyna nú að bæta í forðabúr sitt eftir að helstu birgðasalar þess slitu stjórnmála- og viðskiptasambandi við landið. Reuters greinir frá.

Yfirvöld í Katar hafa verið í viðræðum við Íran og Tyrkland um að tryggja landinu innflutning á mat og vatni. Fyrr í þessum mánuði slitu Sádi Arabía, Egyptaland, Barein, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Jemen stjórnmálasambandi við Katar og sökuðu yfirvöld þar í landi um að styðja hryðjuverkahópa. Stjórnvöld í Katar hafna þessum ásökunum.

„Í kjölfar viðskiptabannsins hefur IranAir hingað til flutt mat og grænmeti til landsins í fjórum flugferðum,“ sagði Shahrokh Noushabadi, yfirmaður almannatengsla hjá IranAir. Íran mun nú flytja um 100 tonn af ávöxtum og grænmeti til Katar á degi hverjum.

Samkvæmt frétt BBC um málið er enn óljóst hvort um er að ræða mataraðstoð af mannúðarástæðum eða viðskiptasamning á milli landanna. Nokkur birgðaskortur hefur ríkt í Katar í kjölfar stjórnmálasambandsslitanna.

Um 80 prósent innfluttrar matvöru í Katar voru innflutt frá ríkjum á Arabíuskaga áður en stjórnmálasambandinu var slitið í síðustu viku. Þá hafa írönsk stjórnvöld eindregið hvatt hlutaðeigandi ríki til að grafa stríðsöxina.


Tengdar fréttir

Samstarfsslitin skilja Katar eftir einangrað

Óvissa ríkir á Arabíuskaganum eftir að fjöldi ríkja sleit stjórnmála- og viðskiptasambandi við Katar í gær. Yfirvöld segja vegið að sjálfstæði landsins en halda því fram að aðgerðirnar komi ekki til með að hafa nein áhrif á daglegt líf borgaranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×