Erlent

Endanleg tala látinna í Grenfell mun ekki liggja fyrir á þessu ári

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Alls voru 129 íbúðir í turninum.
Alls voru 129 íbúðir í turninum. vísir/getty
Endanlegur fjöldi þeirra sem létust í brunanum mikla í Grenfell-turni í London fyrr í mánuðinum mun ekki liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi í lok þessa árs og að öllum líkindum ekki fyrr en á næsta ári. Þetta segir lögreglan í London en fjallað er um málið á vef BBC.

Turninn gjöreyðilagðist í eldsvoðanum sem varð þann 14. júní en 129 íbúðir voru í byggingunni og er talið að á milli 400 og 600 manns hafi búið þar.

Fiona McCormack hjá lögreglunni í London segir að endanleg tala látinna muni liggja fyrir þegar leitar-og björgunarstarfi lýkur. Það getur tekið marga mánuði.

„Það sem ég get sagt er að við teljum að að minnsta kosti 80 manns hafi látist eða sé saknað eftir brunann. Ég vil ekki að það verði einhver fórnarlömb út undan heldur viljum við vita nákvæmlega hversu margir týndu lífi í þessum harmleik,“ segir McCormack.

 

Lögreglan telur að fjöldi íbúa í húsinu hafi fært sig á efri hæðir þess á flótta undan eldinum og að mögulega hafi margir þeirra safnast saman í einni tiltekinni íbúð. Þá er lögreglan nú að undirbúa það að tilkynna tilteknum fjölskyldum að líkamsleifar ættingja þeirra muni hugsanlega aldrei finnast.


Tengdar fréttir

Fjöldi háhýsa standast ekki eldvarnarpróf

Þingmaður Verkamannaflokksins, John McDonnell, sagði í gær að íbúar Grenfell turnsins hefðu verið "myrt“ með ákvörðunum stjórnmálamanna á síðustu áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×