Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Þór/KA 3-2 | Stjörnukonur fyrstar til að vinna Þór/KA í sumar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stjarnan spilar til undanúrslita í Borgunarbikar kvenna eftir frábæran 3-2 sigur á Þór/KA á heimavelli. 

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Samsung-vellinum í kvöld og tók myndirnar hér að neðan.

Leikurinn fór kröftuglega af stað og náðu heimakonurnar forystu strax á þriðju mínútu þegar Kristrún Kristjánsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr aukaspyrnu. Gestirnir að norðan voru þó ekki lengi að svara fyrir sig og skoraði „bæjarstjórinn“ títtnefndi, Sandra Mayor, beint úr aukaspyrnu á tíundu mínútu. 

Það var mikið fjör í fyrri hálfleik, bæði lið sóttu mikið og var baráttan mikil. Þór/KA náði að fara með forystu í hálfleik eftir að Sandra María Jessen skoraði stöngin – inn á 29. mínútu hálfleiksins.  Stjörnukonur hefðu auðveldlega getað jafnað nokkrum sinnum áður en flautað var til leikhlés, en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir reyndist þeim erfiður andstæðingur í marki Þórs/KA.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði, mikill kraftur og sókn hjá heimakonum í Stjörnunni. Þær uppskáru á 50. mínútu þegar Agla María Albertsdóttir kom boltanum í netið og jafnaði leikinn. 

Það dofnaði aðeins yfir leiknum þegar leið á, enda fór mikil orka í fyrri hálfleikinn og mikið leikjaálag verið á leikmönnum beggja liða. Stjarnan var þó alltaf aðeins líklegri og ógnuðu Bryndísi Láru nokkrum sinnum. Það stefndi allt í framlengingu í Garðabænum þegar hver önnur en markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir tryggði heimakonum farseðilinn í undanúrslit með marki á 85. mínútu

Sigur Stjörnunnar var verðskuldaður, en þær fengu hörkuleik frá gestunum að norðan, fyrsti tapleikur Þórs/KA í sumar staðreynd. 

Allt lið Stjörnunnar spilaði mjög vel í dag, Lára Kristín Pedersen var mjög sterk í vörninni sem og Ana Victoria Cate. Guðmunda Brynja Óladóttir var mjög dugleg fram á við ásamt Öglu Maríu Albertsdóttur og lét Katrín Ásbjörnsdóttir finna vel fyrir sér. Það sást á Hörpu Þorsteinsdóttur að hún er ekki komin í sitt allra besta form, en hún stóð sig þó vel í dag og var oft á tíðum ógnandi í fremstu línu hjá Garðbæingum.

Hjá Þór/KA var Bryndís Lára besti maður vallarins. Hún átti fjölmargar glæsilegar vörslur í marki gestanna og má segja að henni sé að þakka fyrir að sigur Stjörnunnar hafi ekki verið stærri. Sandra Mayor átti ágætan leik, jafnt og Andrea Mist Pálsdóttir. Sandra María Jessen var dugleg í fyrri hálfleik en sást ekki mikið í þeim síðari. Þór/KA-liðið í heildina var hálf kraftlaust þegar líða tók á leikinn og mættu þær inn í leikinn eftir hlé eins og þær ætluðu að reyna að halda fengnum hlut. 

Þór/KA geta nú einbeitt sér að því að sigla Íslandsmeistaratitlinum heim í deildinni, á meðan Stjörnunnar bíður undanúrslitaviðureign sem fer fram í ágúst.  

Ólafur Þór: Sundurspiluðum þær og hefðu átt að setja fleiri mörk

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum sáttur eftir leikinn. „Við settum kraft í þetta. Okkur fannst við ekki hafa verið að sýna þann kraft sem við eigum inni undanfarna leiki og við komum vel stemmdar í dag. Frábær leikur hjá okkur“ sagði Ólafur.

Miðað við hvernig Stjörnuliðið var að spila þá fór ekkert illa um hann á hliðarlínunni. Hans konur óðu í dauðafærum og hefðu átt að skora fleiri mörk í fyrri hálfleik þar sem þær sundurspiluðu gestina. 

„Harkan byrjaði á fyrstu mínútu þegar hún henti einum leikmanni hérna í jörðina og fær eitthvað vægt tiltal“ svarar Óli, aðspurður hvað honum hafi fundist um hörkuna í leiknum. „Þær fengu tiltal langt fram eftir leik, mér fannst hún taka allt of lint á því, en að öðru leiti fékk leikurinn að fljóta vel“. 

Donni fagnar.vísir/ernir
Donni: Það að markmaðurinn væri besti leikmaðurinn á vellinum sagði sitt

„Stjörnuliðið var betra í dag og átti sigurinn skilið“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA. „Virkilega svekkjandi samt þar sem við vorum í góðri stöðu í hálfleik, svekkjandi að missa þetta niður svona snemma í seinni hálfleik“ bætir hann við.

Halldór segir liðið ekki hafa lagt upp með það í hálfleik að halda fengnum hlut, þó þær hafi verið í góðri stöðu þá hafi ekki verið nein ástæða til að pakka saman í vörn. 

Hann hefur litlar áhyggjur af því að þessi tapleikur hafi áhrif á gengi Þórs/KA í deildinni. „Þetta eru tvær keppnir, nú er ein keppni dottin út og þá er bara að einbeita sér að hinni“

 

Agla María Albertsdóttir var á skotskónum.Vísir/Ernir
vísir/ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira