Sandra María Jessen, Hólmfríður Magnúsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir hafa lítið spilað síðustu vikurnar en Freyr Alexandersson valdi þær engu að síður í EM-hóp Íslands sem var tilkynntur í dag.
Sandra María sleit aftara krossband í hné í mars og þurfti ekki að fara í aðgerð. Hólmfríður fótbrotnaði í upphafi árs og Harpa eignaðist barn í vetur.
„Ég hef engar áhyggjur af þeim. Ég get ekki breytt því sem gerðist fyrir mótið en tvær úr þessum hópi hafa gríðarlega reynslu og þekkja alla umgjörð,“ sagði Freyr á blaðamannafundi í dag.
Hann hefur notað síðustu mánuði til að breyta leikaðferð íslenska landsliðsins og bendir á að bæði Sandra og Hólmfríður hafi verið með í Kína, þar sem breytingarnar hafi fyrst verið kynntar.
Engin þeirra var valin fyrir síðasta landsliðsverkefni en Freyr segist frekar hafa viljað skoða aðra leikmenn í þeim leikjum.
„Ég vildi frekar að þær þrjár myndu æfa með sínum félagsliðum. En það var verið að fylgjast mjög vel með þeim þar.“
Freyr sagði að Hólmfríður og Harpa myndu fá annað hlutverk með landsliðinu en þær eru vanar. Hvorug er líkleg til að fara beint í byrjunarliðið.
„Hólmfríður verður ekki í lykilhlutverki eins og áður. Hún verður stuðningur við hópinn og mun auka breiddina. En hún er X-faktor og það veit enginn hvað hún mun gera.“
Freyr hefur ekki áhyggjur af Hörpu, Söndru og Hólmfríði

Tengdar fréttir

Svona var EM-hópurinn tilkynntur
Freyr Alexandersson tilkynnti EM-hópinn sem fer til Hollands í næsta mánuði en fundurinn var í beinni útsendingu á Vísi.

EM-hópurinn valinn: Harpa fer með til Hollands
Framherjinn Harpa Þorsteinsdóttir úr Stjörnunni fer með íslenska landsliðinu á EM í Hollandi en EM-hópurinn var tilkynntur á blaðamannafundi í Laugardalnum rétt í þessu.

EM-hópurinn hjá stelpunum okkar valinn í dag
Vísir verður með beina útsendingu frá blaðamannafundinum sem hefst klukkan 13.15.

Freyr: Harpa er með því að hún er nægilega góð
Harpa Þorsteinsdóttir var sú eina sem fékk að vita fyrirfram að hún væri með í EM-hópi Íslands.