Á bókunarsíðunni AirBnb býðst ferðamönnum að bóka gistingu í bílskotti í Grafarvogi fyrir 21 pund nóttina eða sem samsvarar 2.745 krónum á gengi dagsins.
Í bílnum er dýna fyrir tvo og geta gestir tekið með sér svefnpoka eða notað sængur sem eru í bílnum. Sérstaklega er tekið fram í auglýsingunni að aðeins sé hægt að gista í bílnum; það sé ekki hægt að keyra hann og þá er enginn miðstöð í bílnum til að hita hann upp.
Hins vegar má hlaða farsímann í bílnum og þá er frítt þráðlaust internet í boði. Ekkert klósett er auðvitað í bílnum en á bókunarsíðunni er bent á það að í aðeins 500 metra fjarlægð sé indælis bensínstöð þar sem hægt er að fá sér kaffi auk þess sem sundlaug er í 900 metra fjarlægð.
Það er bannað að reykja inni í bílnum og hafa með sér gæludýr og þá má ekki halda þar partý.
Hægt er að leigja sér fleiri bíla til að gista í hér á landi inni á AirBnb en þeir eiga það allir sameiginlegt, öfugt við bílinn í Grafarvogi, að þá má keyra um landið enda er þar um að ræða húsbíla í allflestum tilfellum.
AirBnb hefur svo sannarlega færst í aukana hér á landi með auknum straumi ferðamanna en það er vissulega nýstárlegt að bjóða upp á gistingu í skotti á bíl sem ekki er hægt að keyra.
Bóka má gistingu í skottinu hér.
