„Við erum að fara að spila til að vinna, númer 1, 2 og 3,“ sagði Freyr um hvað hann vildi sjá og ætlaði sér að gera í lokaleiknum gegn Sviss.
„Það eina sem er í kollinum á mér er að vinna. Fara út úr þessu móti með sigri. Ég mun taka afstöðu með hverjar byrja út frá líkamlegu og andlegu ástandi leikmanna.“

Greinilegt er að mikil þreyta er í íslenska hópnum, andlega sem líkamlega, en það var ástæða þess að Freyr afboðað hitting leikmanna með blaðamönnum í morgun. Þess í stað mætti hann sjálfur með þjálfarateyminu og ræddi við blaðamenn.
„Við viljum fara út úr þessu móti sem sigurvegarar,“ sagði Freyr. „Við lifum í núinu. Þessi leikur telur mikið fyrir okkur.“
Hugsar hann til þess að leikmenn þurfi á því að halda að vinna leik, fyrir sig og fyrir stuðningsmennina. Hann ætlar ekki að gera breytingar á liðinu bara til að gera breytingar. Hann velji sterkasta liðið út frá því hvaða leikmenn séu klárir í slaginn, andlega og líkamlega.
Hólmfríður Magnúsdóttir átti fína innkomu gegn Sviss og þá vilja margir sjá Söndru Maríu Jessen fá tækifæri.
„Þær gætu byrjað, þótt við ætlum okkur að vinna. Það er ekki útilokað að þær byrji leikinn. Ég treysti þessum 23 öllum til að byrja. Það kemur sterklega til greina að gera breytingar á byrjunarliðinu.“

Freyr gæti þurft að gera breytingar á byrjunarliðinu vegna meiðsla lykilmanna. Dagný Brynjarsdóttir var ekki heil heilsu fyrir mótið og fékk sóla í kviðinn gegn Sviss og er bólginn. Dagný er samt lykilmaður í byrjunarliðinu og ljóst að mikið þarf að gerast til að hún byrji ekki.
Sömu sögu er að segja um Söru Björk Gunnarsdóttur fyrirliða sem meiddist gegn Sviss en reiknar með því að verða klár í slaginn á miðvikudaginn. Þá fékk Sif Atladóttir hné í læri og var aum á æfingu liðsins í gær.
En sama hvaða ellefu byrja leikinn þá er markmiðið ljóst.
„Það er skýr krafa að ljúka mótinu með stolti og fullum krafti.“
Upptöku frá fundinum má sjá hér að neðan.