Til stóð að blaðamenn fengju að ræða við hóp leikmanna landsliðsins á æfingasvæði liðsins í morgun. Freyr ákvað seint í gær að breyta þeim hittingi í fund með þjálfurum þar sem leikmenn þyrftu hvíld, jafnt líkamlega sem andlega.
Freyr fór um víðan völl í svörum sínum við spurningum blaðamanna. Til umræðu var meðal annars að Ísland þyrfti að eignast fleiri leikmenn í atvinnumennsku, þó ekki í meðal liðum í Noregi.
Upptöku frá fundinum má sjá neðst í fréttinni.

Ef litið er yfir leikmannahóp Íslands og hann borinn saman við hópa hinna landsliðanna fimmtán á EM er hópur Íslands einn sá slakasti miðað við þau félagslið sem leikmenn spila með. Freyr segir hóp Íslands einn af þremur lélegustu hvað þetta varðar.
Til samanburðar spilar allt byrjunarlið Austurríkis í þýsku úrvalsdeildinni, leikmenn Sviss spila í mjög sterkum liðum og Frakkar spila lang flestir í frönsku deildinni. Lyon og PSG í Frakklandi mættust í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. En hvers vegna erum við ekki með fleiri leikmenn í sterkari deildunum?

„Þær geta búið hjá foreldrum sínum og eru í aukavinnu með,“ sagði Freyr. Aðstaðan heima sé fín og þjálfarar fínir. Samt ekkert í líkingu við aðstöðuna hjá stóru félögunum úti í heimi.
„Við græðum ekkert á miðlungsklúbbum í Noregi,“ sagði Freyr og vill stelpurnar í topp fimm lið í Svíþjóð, í vaxandi deildir Englands og Spánar eða þá frönsku eða þýsku deildina. Jafnvel þá bandarísku.
Þá var Freyr spurður út í kínversku deildina þar sem Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, þjálfar. Sigurður Ragnar vildi fá Dagnýju Brynjarsdóttur í liðið í vetur. Hún endaði á að afþakka boðið og í framhaldinu tókust Freyr og Sigurður Ragnar á í fjölmiðlum. Sigurður Ragnar taldi Frey standa í vegi fyrir að Dagný færi út.

Fyrst og fremst þyrfti fórnfýsi hjá leikmönnum að ætla sér út, sama hvað það kosti þótt fleiri þættir spili inn í.
„Ég veit samt að það er áhugi á íslenskum leikmönnum,“ sagði Freyr. „Ég er með ansi mörg e-mail sem þarf að svara.“
Aðspurður hvaða leikmönnum hafi verið sýndur áhugi sagði Freyr það í raun vera alla leikmenn sem væru ekki þekktar stærðir fyrir. Hann nefndi engin nöfn en telja má líklegt að Agla María Albertsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Sigríður Lára Garðarsdóttir séu meðal þeirra sem fyrirspurnum rignir inn um.