Erlent

Sanders nýr fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Anthony Scaramucci tilkynnti um stöðuhækkun Sanders fyrr í kvöld.
Anthony Scaramucci tilkynnti um stöðuhækkun Sanders fyrr í kvöld. vísir/afp
Sarah Huckabee Sanders hefur verið ráðin í starf fjölmiðlafulltrúa Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Sanders, sem starfaði áður sem aðstoðarfjölmiðlafulltrúi forsetans, tekur við starfinu af Sean Spicer, sem sagði starfi sínu lausu fyrr í dag.

Þetta tilkynnti Anthony Scaramucci, nýráðinn samskiptastjóri Hvíta hússins, á blaðamannafundi fyrr í kvöld, en Spicer sagði upp vegna ráðningar Scaramucci. Spicer sagði það mikil mistök að ráða manninn í vinnu og ákvað því frekar að hætta en að starfa við hlið hans.

Sanders hefur verið nokkuð í kastljósinu að undanförnu en hún hélt meðal annars blaðamannafund eftir að Trump rak James Comey úr starfi forstjóra alríkislögreglunnar, FBI.

Þá er hún ekki ókunnug pólitíkinni því faðir hennar er Mike Huckabee, fyrrverandi ríkisstjóri Arkansas en hann hefur tvisvar boðið sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna.

Nokkurs titrings virðist gæta meðal þeirra sem starfa næst Trump, því fyrr í dag var greint frá því að talsmaður lögfræðiteymis hans hefði sagt upp störfum. Ástæðan er ósætti við þá stefnu teymisins að koma óorði á þá sem fara með rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×