Innlent

Útlendingastofnun bætir Georgíu og Kósóvó við á lista yfir örugg ríki

Atli Ísleifsson skrifar
Alls bárust Útlendingastofnun fimm hundruð umsóknir um hæli á fyrri hluta þessa árs.
Alls bárust Útlendingastofnun fimm hundruð umsóknir um hæli á fyrri hluta þessa árs. Vísir/Stefán
Útlendingastofnun hefur sett Georgíu og Kósóvó á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki, en talsverður fjöldi hælisleitenda hefur á síðustu misserum komið hingað til lands frá ríkjunum tveimur.

Almennt er ríkisborgurum ríkja á lista yfir örugg ríki ekki veitt hæli hér á landi og þeim snúið aftur til síns upprunaríkis, líkt og fram kemur á heimasíðu stofnunarinnar.

Alls bárust Útlendingastofnun fimm hundruð umsóknir um hæli á fyrri hluta þessa árs. Flestar komu frá albönskum ríkisborgurum, eða 147, en næstflestar frá Georgíumönnum, eða 62. Þrettán umsóknir bárust frá einstaklingum frá Kósóvó.

Fram kemur að starfsmenn Útlendingastofnunar hafi kannað aðstæður í Georgíu í þaula í tengslum við hælisumsóknir fólks frá landinu og fyrir liggi að allar forsendur séu fyrir hendi til að skilgreina Georgíu sem öruggt ríki. Sömu sögu sé að segja um Kósóvó.

Grundvallarmannréttindi almennt virt

Á heimasíðu Útlendingastofnunar kemur fram að grundvallarmannréttindi séu almennt talin virt í ríkjum á lista yfir „örugg ríki“ og mál hælisleitenda með ríkisfang í þessum löndum fari að öllu jöfnu í forgangsmeðferð hjá Útlendingastofnun.

„Yfirleitt er ríkisborgurum þessara ríkja sem sækja um hæli hér á landi ekki veitt hæli og þeim snúið aftur til síns upprunaríkis. Hvert mál er þó skoðað sérstaklega á eigin forsendum með tilliti til viðeigandi upplýsinga á hverjum tíma og það eitt að hælisleitandi sé frá ríki á listanum getur aldrei leitt til þess að Útlendingastofnun taki mál hans ekki til skoðunar eða synji umsókn hans án undangenginnar rannsóknar. Þegar það á við eru mál ríkisborgara landa á listanum tekin til almennrar efnismeðferðar og er listinn því aðeins til hliðsjónar,“ segir á heimasíðu stofnunarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×