Innlent

Erill vegna ofbeldis og ölvunar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þrjú ofbeldismál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Þrjú ofbeldismál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/eyþór
Lögreglan handtók í miðborginni í nótt karlmann sem hafði sparkað í höfuð annars manns. Lögreglumenn á vakt urðu vitni að árásinni og gripu inn í. Hinn slasaði var færður á slysadeild til skoðunar á meðan hinn fékk að gista fangageymslur.

Þrjú ofbeldismál komu til kasta lögreglunnar í nótt en laust fyrir klukkan þrjú í nótt var tilkynnt um mann með höfuðáverka í miðbæ Reykjavíkur. Sá hafði fengið glas í andlitið svo úr blæddi. Hann var fluttur á slysadeild en ekki er vitað hver kastaði glasinu í manninn.

Þá segir í skeyti frá lögreglu að á fimmta tímanum í nótt hafi verið tilkynnt um ósátt par í austurbænum. Þegar lögreglu bar að garði hafði karlmaður veist að konu og var maðurinn handtekinn á staðnum. Konan var flutt á slysadeild.

Laust fyrir klukkan hálf þrjú óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð þar sem farþegi neitaði að borga fargjaldið. Þegar farþeginn vissi að lögregla væri á leiðinni snaraði hann fram peningum og greiddi fargjaldið. Með því lauk málinu.

Sjö ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Allir voru látnir lausir að lokinni sýna- og skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×