Innlent

Sótti veikan skipverja

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þyrlan var kölluð út vegna veiks skipverja, slyss í Hvítá og beðin um að svipast eftir manninum sem féll í Gullfoss. Mynd úr safni.
Þyrlan var kölluð út vegna veiks skipverja, slyss í Hvítá og beðin um að svipast eftir manninum sem féll í Gullfoss. Mynd úr safni. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í gærkvöldi eftir að tilkynning barst um veikan skipverja um borð í erlendum togara. Togarinn var þá að veiðum í grænlenskri lögsögu, rúmar 120 sjómílur norðvestur af Straumnesi.

Vakthafandi þyrlulæknir taldi þörf á að koma skipverjanum sem fyrst undir læknishendur en þar sem ekki var unnt að senda þyrlu frá Grænlandi var ákveðið að senda þyrlu Gæslunnar, og var skipstjórinn því beðinn að halda áleiðis til Íslands til móts við þyrluna.

Þar sem um langa vegalengd á haf út var að ræða var TF-LÍF til taks á Reykjavíkurflugvelli í öryggisskyni. Þyrlan lagði af stað á áttunda tímanum í gærkvöldi og var komin að togaranum um tíu leytið. Þar var sjúklingurinn hífður um borð í þyrluna og síðan haldið áleiðis til Reykjavíkur. Þyrlan lenti í Reykjavík um miðnætti.

Landhelgisgæslan fékk tvö útköll, en það fyrra var vegna slyss í Hvítá, þar sem erlendur ferðamaður féll útbyrðis í flúðasiglingu, og lést. Þyrlan var skammt frá vettvangi þegar hún var afboðuð, en þar sem hún var komin að Hvítá óskaði lögregla eftir því að svipast yrði um eftir manninum sem féll í Gullfoss fyrir skömmu. Sú leit bar ekki árangur.

Einnig var flogið yfir Mýrdalsjökul og teknar myndir fyrir Veðurstofuna af sigkötlum í jöklinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×