Erlent

UNESCO vill byggja Gömlu borgina í Aleppó upp eftir teikningum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ástand Aleppóborgar hefur verið betra.
Ástand Aleppóborgar hefur verið betra. Nordicphotos/AFP
Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, vill byggja hina svokölluðu Gömlu borg í Aleppó upp á ný. Borgin er í rústum eins og stendur vegna sýrlensku borgarastyrjaldarinnar. Þúsundir borgara hafa látið lífið í átökum og margfalt fleiri hafa flúið borgina.

„Okkar sýn er sú að við viljum byggja Gömlu borgina upp nákvæmlega eins og hún var fyrir stríð, jafnvel með sömu steinum þar sem það er hægt,“ sagði Mazen Samman, verkefnisstjóri UNESCO í Aleppó, í viðtali við Reuters í gær.

Að sögn Samman eru til nákvæmar teikningar af hinum gömlu moskum, virkjum og baðhúsum Gömlu borgarinnar. Það geri UNESCO kleift að byggja borgina upp á ný. Hins vegar eru ekki til jafnítarlegar teikningar af byggingum og strætum sem nutu ekki jafnmikilla vinsælda.

Samman segir UNESCO og önnur alþjóðleg samtök hafa mikinn áhuga á því að viðhalda og endurreisa sýrlenskan menningararf. Þó muni megnið af ábyrgðinni hvíla á herðum innfæddra.

Í frétt Reuters kemur fram að endurbygging Gömlu borgarinnar sé mikilvægt verkefni Bashars al-Assad, forseta Sýrlands. Jafnt sem tákn um endurheimt völd hans og vegna efnahagslegs mikilvægis Aleppóborgar.

Orrustunni um Aleppó lauk í desember síðastliðnum þegar her Assads tókst að hrekja uppreisnarmenn úr borginni. Uppreisnarmenn halda þó enn stórum landsvæðum í héraðinu umhverfis borgina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×