Erlent

Ísraelar sprengdu meinta efnavopnaverksmiðju

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sýrlenski herinn er meðal annars sagður hafa notað efnavopn þegar hann réðst á Khan Sheikhoun í apríl.
Sýrlenski herinn er meðal annars sagður hafa notað efnavopn þegar hann réðst á Khan Sheikhoun í apríl. vísir/EPA
Ísraelski herinn gerði í gær árás á herstöð í vesturhluta Sýrlands. Frá þessu greindi sýrlenski stjórnarherinn í gær. Í tilkynningu hersins kemur fram að eldflaugar hafi komið í gegnum líbanska lofthelgi og hæft herstöð nærri borginni Masyaf með þeim afleiðingum að tveir hermenn fórust og búnaður eyðilagðist.

Sýrlenski herinn hélt því fram að árás Ísraela væri „örvæntingarfull tilraun“ til að stappa stálinu í liðsmenn Íslamska ríkisins og varaði Ísraela við því að aðgerðir sem þessar gætu haft neikvæð áhrif á öryggi og stöðugleika svæðisins.

Samtökin Syrian Observatory for Human Rights héldu því fram í kjölfar árásarinnar að skotmarkið hafi í raun verið rannsóknarstöð og birgðastöð fyrir eldflaugar.

Breska ríkisútvarpið fjallaði um árásina í gær og vísaði í frétt sína frá því í maí þar sem heimildarmenn innan vestrænnar leyniþjónustu fullyrtu að rannsóknarstöðin nærri Masyaf, líkt og í Dummar og Barzeh, væri notuð til þess að framleiða efnavopn. Ef satt reynist er það skýrt brot á samkomulagi um efnavopn sem náðist árið 2013.

Amos Yadlin, fyrrverandi leiðtogi leyniþjónustu ísraelska hersins, tísti því í gær að árásin væri ekki hefðbundin árás líkt og þær sem hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir vopnasmygl til Hezbollah-samtakanna. Árásin hafi beinst að rannsóknarstöð sem hafi meðal annars framleitt efnavopn og tunnusprengjur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×