Bjarni las upp forsetabréf Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, þar sem segir að ákveðið er að þing verði rofið þann 28. október næstkomandi og að almennar kosningar fari til Alþingis fari fram sama dag.
„Við þekkjum öll aðdraganda þess að ég hef í dag lagt fyrir forseta þetta bréf sem ég hef hér lesið upp en það formsatriði er hér með uppfyllt að bréfið er tilkynnt á Alþingi þannig að það taki gildi,“ sagði Bjarni þegar hann hafði lokið við að lesa upp bréfið. Enginn annar tók til máls en ekki var annað á dagskrá þingsins en tilkynning Bjarna.
Í fyrra þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi forsætisráðherra, las upp tilkynningu um þingrof þann 20. september tóku nokkrir stjórnarandstæðingar til máls í kjölfar tilkynningarinnar og voru þeir þá allir á einu máli um að fréttirnar væru af hinu góða. Kosningum sem fara áttu fram vorið 2017 var þá flýtt vegna Panama-skjalanna og fóru fram þann 29. október.