Innlent

Víglínan snýr aftur á Stöð 2 og Vísi

Samúel Karl Ólason skrifar
Víglínan, þjóðmálaþáttur Stöðvar 2, snýr aftur til leiks að loknu sumarleyfi í hádeginu næst komandi laugardag. Þátturinn er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi og hefst klukkan 12:20. Þátturinn er að venju að mestu í umsjón Heimis Más Péturssonar fréttamanns á Stöð 2 en Höskuldur Kári Schram fréttamaður hleypur einnig í skarðið af og til.

Gestir Víglínunnar næsta laugardag verða Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna, Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar. Heimir Már hlakkar til að taka þráðinn upp að nýju nú í upphafi þings.

„Það er spennandi vetur fram undan í stjórnmálunum og af nógu að taka í fyrsta þættinum þar sem fjárlög voru kynnt í vikunni og umræður fóru fram um stefnuræðu forsætisráðherra,“ segir Heimir Már.

Búast má við að hart verði tekist á um áherslur í fjárlagafrumvarpinu.

„Já eins og hljóðið hefur verið í stjórnarandstöðunni má reikna með því og þá eru sumir stjórnarliðar ekki hressir með allt í frumvarpinu. Þá eru kjarasamningar fjölmennra félaga opinberra starfsmanna lausir og flóknir kjarasamningar fram undan þannig að það mun ekki skorta á hitann í þjóðmálaumræðunni,“ segir Heimir Már.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×