Gríðarleg aukning hefur verið í umferð á höfuðborgarsvæðinu á milli mánaða. Sérfræðingur á umferðarsviði Vegagerðarinnar segir fjölgunina bæði náttúrulega auk þess sem aukinn hagvöxtur eykur umferðarþunga.
Umtalsverð aukning hefur verið á umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt teljurum Vegagerðarinnar á þeim stofnbrautum þar sem umferð er mæld. Til að mynda fóru rúmlega 51.700 bílar daglega um Vesturlandsveg ofan Ártúnsbrekku í ágústmánuði árið 2016 en rúm 59.200 í ágústmánuði í ár.
Friðleifur Ingi Brynjarsson, sérfræðingur hjá umferðardeild Vegagerðarinnar, segir aukningu hjá öllum teljurum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu. „Við höfum verið að mæla það núna allt þetta ár gríðarlega mikla aukningu, allt upp í tæp fimmtán prósent í mars, sem er metaukning í einum mánuði.“
Hann segir aukninguna í marsmánuði þó einnig skýrast af því að páskar voru í mars í fyrra og því lítil umferð á höfuðborgarsvæðinu samanborið við mars í ár en páskar voru í apríl þetta árið.
En hvað orsakar þessa miklu alemennu fjölgun í umferðinni?
„Auðvitað er hluti af þessu náttúruleg aukning, tvö til þrjú prósent má segja að sé náttúruleg aukning. Síðan er auðvitað umferðin mikið háð því hvernig efnahagsástandið er í landinu. Ef það eru mikil umsvif og mikið að gera þá eykst umferðin og það mælist mjög mikil fylgni milli hagvaxtar, eða vergrar landsframleiðslu, og umferðarinnar. Umferðin eykst alveg í takt við uppganginn í þjóðfélaginu.“
Þá telur koma ferðamanna til landsins vitaskuld eitthvað.
„Við teljum að hún hafi einhver áhrif. Við erum að mæla núna í Hvalfjarðargöngum hvert hlutfall útlendinga er um göngin, hvert hlutfall erlendra ökumanna er um göngin, og það er um tíu prósent,“ segir Friðleifur Ingi Brynjarsson, sérfræðingur hjá umferðardeild Vegagerðarinnar.