Viðskipti innlent

Kaupfélag Skagfirðinga kaupir hlut Lýsis í útgáfufélagi Morgunblaðsins

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga.
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga.
Félagið Íslenskar sjávarafurðir, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, hefur keypt hlut Lýsis í einkahlutafélaginu Þórsmörk, eiganda Árvakurs, sem gefur meðal annars út Morgunblaðið. Íslenskar sjávarafurðir eiga nú 15,84 prósenta hlut í Þórsmörk, samkvæmt nýuppfærðum hluthafalista félagsins, en Lýsi, sem átti 1,69 prósenta hlut, er farið úr hluthafahópnum.

Íslenskar sjávarafurðir hafa bætt nokkuð við hlut sinn í Árvakri í sumar. Hefur eignarhluturinn farið úr 9 prósentum í tæp 16 prósent en félagið lagði Árvakri til aukið fjármagn fyrr í sumar þegar hlutafé útgefandans var aukið um 200 milljónir króna.

Félagið Ramses II, í eigu Eyþórs Arnalds fjárfestis, er eftir sem áður stærsti einstaki eigandi Þórsmerkur með 22,87 prósenta hlut. Félagið Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthías­dóttur, útgerðarkonu í Vestmannaeyjum, kemur þar á eftir með 16,5 prósenta hlut og þá á Ísfélag Vestmannaeyja 13,4 prósenta hlut.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×