Filippus Spánarkonungur sagði að leiðtogar Katalóníu hefðu vanvirt völd spænska ríkisins í ávarpi sem hann flutti í kvöld. Fordæmdi hann skipuleggjendur þjóðaratkvæðagreiðslunnar um sjálfstæði héraðsins.
Hundruð þúsunda Katalóníubúa hafa mótmælt framferði þjóðvarðliðsins á sunnudag þegar það reyndi að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem stjórnlagadómstóll Spánar hafði úrskurðað ólöglega. Hundruð manna særðust í átökum við lögreglu.
Í ávarpi sínu í kvöld kallaði Filippus konungur eftir einingu en fordæmdi jafnframt skipuleggjendur atkvæðagreiðslunnar.
„Þeir hafa brotið lýðræðislegar grundvallarreglur réttarríkisins,“ sagði Spánarkonungur.
Sagðist hann jafnframt telja katalónskt samfélag sundrað og varaði við því að þjóðaratkvæðagreiðslan gæti stefnt efnahag héraðsins og Spánar í heild sinni í voða.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að fleiri en 2,2 milljónir Katalóna hafi greitt atkvæði á sunnudag. Héraðsstjórnin segir að 90% þeirra hafi stutt sjálfstæði. Opinberar tölur hafa þó enn ekki verið birtar.
Kjörsókn var heldur dræm, aðeins 42%. Það er talið geta grafið undan stöðu Carles Puigdemont, leiðtoga héraðsstjórnar Katalóníu.
Erlent