Erlent

Höfuðvígi Ríkis íslams í Raqqa sagt fallið

Kjartan Kjartansson skrifar
Hermaður SDF í Raqqa í ágúst. Orrustan um borgina hefur staðið yfir frá því í júní.
Hermaður SDF í Raqqa í ágúst. Orrustan um borgina hefur staðið yfir frá því í júní. Vísir/AFP
Bandalag sýrlenskra kúrda og araba sem stutt er af Bandaríkjunum hefur náð fullu valdi á sýrlensku borginni Raqqa. Borgin hefur verið höfuðvígi hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams en orrustan um hana hefur staðið yfir í fimm mánuði.

„Öllu er lokið í Raqqa, hersveitir okkar hafa fulla stjórn á Raqqa,“ segir Talal Sello, talsmaður Sýrlensku lýðræðisveitanna.

Um þrjúhundruð íslamistar voru eftir í borginni á sunnudag eftir að sýrlenskir vígamenn og fjölskyldur þeirra höfðu yfirgefið hana í samræmi við samkomulag sem gert hafði verið.

Erlendir vígamenn háðu lokabaráttu sína á íþróttaleikvelli borgarinnar og sjúkrahúsi. Breska ríkisútvarpið BBC segir að talið sé að 22 hafi fallið í lokaatlögunni að sjúkrahúsinu.

Nú stendur yfir hreinsunarstarf í borginni þar sem bandalagshersveitirnar leita uppi liðsmenn Ríkis íslams sem gætu leynst þar og fjarlægja jarðsprengjur. Búist er við því að formlega siguryfirlýsing verði gefin út síðar í dag.

Ríki íslams hertók Raqqa snemma árs 2014 og gerði borgina að höfuðvígi að yfirlýstu kalífadæmi sínu. Undir stjórn samtakanna voru ströng trúarleg lög í gildi. BBC segir að liðsmenn þeirra hafi beitt afhöfðunum, krossfestingum og pyntingum til að halda borgarbúum í heljartökum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×