Talsverð ringulreið ríkir í Katalóníu eftir að Carles Puigdemont, forseti heimastjórnarinnarinnar, ákvað að hætta við ræðu sem hann hugðist flytja í katalónska héraðsþinginu í dag.
Búist var við að Puigdemont myndi leysa upp þing Katalóníu og boða til nýrra kosninga sem myndu fara fram 20. desember. Frá þessu greindu fjöldi spænskra fjölmiðla fyrr í dag.
Upphaflega stóð til að Puigdemont myndi flytja ræðuna klukkan 11:30 að íslenskum tíma, en henni var síðar frestað um klukkustund. Síðar var greint frá því að Puigdemont hafi hætt við að flytja ræðu sína.
Spænska þingið kemur saman á morgun til að ræða hvort að beita eigi 155. grein stjórnarskrárinnar og afturkalla sjálfstjórn Katalóníu.
Samband stjórnvalda í Madríd og héraðsstjórnar Katalóníu versnaði til muna eftir að mikill meirihluti þeirra sem þátt tóku í þjóðaratkvæðagreiðslu 1. október greiddu atkvæði með því að lýsa yfir sjálfstæði. Sambandssinnar sniðgengu atkvæðagreiðsluna.
