Skoðun

Heilbrigðiskerfið svelt

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Stefna Flokks fólksins í heilbrigðismálum er að veita þá grunnþjónustu sem mörkuð er í lögum um heilbrigðisstofnanir og að margra mánaða biðlistar í aðgerðir eða greiningar heyri sögunni til. Undanfarin ár hafa verið allt að tveggja ára biðlistar í aðgerðir, á Barna- og unglingageðdeild og Þroska-og hegðunarmiðstöð.

Niðurskurður undanfarinna ára í heilbrigðisþjónustu hefur lengt biðina eftir heilbrigðisþjónustu. Þetta hefur valdið auknu álagi á heilbrigðisstofnanir og starfsfólk stofnana.

Íslenska heilbrigðisstéttin býr yfir dýrmætum mannauði. Hluti sérfræðinga er reyndar löngu farinn af landi brott vegna versnandi starfskjara- og umhverfis og fundið sér eftirsóknarverðari tækifæri á erlendri grundu þar sem störf þeirra eru betur metin að verðleikum. Það er á ábyrgð stjórnvalda að gera starfsumhverfið í íslenska heilbrigðiskerfinu aðlaðandi og eftirsóknarvert. Í dag vantar nokkur hundruð hjúkrunarfræðinga til starfa. Þar er ekki einungis launamálum og lélegu starfsumhverfi um að kenna. Undirmönnun og álag á heilbrigðisstarfsfólk er líka ástæðan. Flokkur fólksins krefst tafarlausra úrbóta í heilbrigðismálum.

Í síðustu fjárlögum var niðurskurðarhnífnum enn beitt af krafti á heilbrigðiskerfið. Í auknum mæli er verið að leggja grunn að einkareknum fyrirtækjum sem sinna grunnheilbrigðisþjónustu og sérhæfðum lækningum.

Einkavæðing er dýr lausn. Almenningur greiðir komugjald en ríkið borgar afganginn. Einkaaðilar eru milliliðir sem fá arð úr fyrirtækjum sínum. Hægt er að bera saman annars vegar bandaríska kerfið og hins vegar danska kerfið og er bandaríska kerfið tvöfalt dýrara.

Flokkur fólksins vill styrkja þessa meginstoð sem almenna heilbrigðiskerfið er. Veita þarf meira fjármagni beint og milliliðalaust í opinberar heilbrigðisstofnanir, heilsugæsluna og á Landspítalann. Þegar fjárframlög aukast er hægt að endurskipuleggja þjónustuna með það að leiðarljósi að fjölga heilbrigðisstarfsmönnum, létta álagið á starfsfólk og bæta starfsumhverfið. Í kjölfarið má ætla að grynnki á biðlistum. Biðlistar til tveggja ára eru með öllu óviðunandi og skýrt merki um langvarandi fjársvelti í þennan málaflokk.

Höfundur er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×