Pablo Punyed skrifaði í dag undir þriggja ára samning við KR og mun spila í svart-hvítu og undir stjórn Rúnars Kristinssonar í Pepsi deildinni næsta sumar.
Arnar Björnsson ræddi við Pablo Punyed í kvöldfréttum Stöð 2 en Punyed er 27 ára gamall og kemur frá El Salvador í Mið-Ameríku.
Punyed hefur spilað í íslensku deildinni frá 2012 og talaði íslensku við Arnar Björnsson á blaðamannfundi í Frostaskjóli í dag.
„KR er besta liðið á Íslandi og ég er sjálfur að taka stórt skref með því að koma hingað,“ sagði Pablo Punyed.
„KR er með tvo góða þjálfara sem hafa mikla reynslu úr fótboltanum sem leikmenn. Það er gott skref að koma til þeirra,“ sagði Pablo.
„Það vilja allir vinna KR og mig langar að hafa þessa pressu á mér. Pressuna á að vera á toppnum með KR,“ sagði Pablo en heldur hann að hann geti orðið betri fótboltamaður undir stjórn Rúnars Kristinssonar?
„Já að sjálfsögðu. Bjarni (Guðjónsson aðstoðarþjálfari) var líka miðjumaður og ég get lært af honum líka. Rúnar þjálfaði í Noregi og Belgíu og ég vil læra meira og meira af þeim báðum,“ sagði Pablo.
Pablo talar góða íslensku og Arnar hrósaði honum fyrir það.
„Ég er búinn að vera á Íslandi í sex ár en það er erfitt að tala íslensku. Ég reyni alltaf að gera mitt besta. Ég segi ekki öllum að ég tala íslensku og er svolítið undir radarnum,“ sagði Pablo léttur að lokum.
Það má sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Nýi Salvadorinn í liði KR talaði íslensku: Stórt skref fyrir mig
Tengdar fréttir
Pablo Punyed kvaddi ÍBV í gær og samdi við KR í dag | Beitir og Pálmi framlengdu
Pablo Punyed skrifaði í dag undir þriggja ára samning við KR og mun spila með liðinu í Pepsi-deild karla í fótbolta næsta sumar.