Erlent

Weinstein útbjó leynilista til að koma í veg fyrir ásakanir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. Vísir/Getty

Breska dagblaðið The Observer hefur komist yfir leynilegan lista Harwey Weinstein sem hann setti saman til þess að átta sig á því hverjir vissu um ásakanir um kynferðislega áreitni eða ofbeldi af hans hálfu. Listinn staðfestir að Weinstein vissi um væntanlegan fréttaflutning af málinu, mánuðum áður en fyrstu fréttir voru birtar.



Alls eru 91 einstaklingur á listanum, frægar leikkonur, framleiðendur, fjármálasérfræðingar og aðrir sem eiga það sameiginlegt að hafa starfað í kvikmyndabransanum. Listinn var hluti af herferð Weinstein til þess að reyna að koma í veg fyrir fréttaflutning af ásökunum á hendur honum um nauðgun eða kynferðislega áreitni.



Áður hefur komið fram að Weinstein hafi ráðið njósnara til starfa á síðasta ári til að reyna að hylma yfir og koma í veg fyrir að fréttir af árásum hans myndu rata í fjölmiðla.



Svo virðist sem að njósnararnir hafi nýtt sér þennan lista til þess að reyna að finna upplýsingar um hverjir það væru sem ætluðu sér að stíga fram. Upplýsingunum var svo miðlað til Weinstein og lögfræðinga hans.



Listinn var tekinn saman snemma á þessu ári, um níu til tíu mánuðum áður en fyrsta frétt New York Times af ásökunum var birt. Þó virðist sem að njósnarar Weinstein hafi hafið störf löngu fyrir þann tíma en á listanum kemur fram að í febrúar 2016 hafi þeir náð sambandi við eina af þeim konum sem steig fram með ásakanir á hendur Weinstein.



Meðal þeirra kvenna sem eru á listanum er Rose McGowan sem sakað hefur Weinstein um nauðgun. Þá staðfestir listinn að Weinstein og lögfræðingar hans vissu af því að New York Times væri að vinna frétt vegna ásakana á hendur Weinstein, löngu áður en fréttin birtist, en á listanum er minnst á blaðakonuna sem fór fyrir fréttaflutningi New York Times af málinu



Minnst 50 konur hafa stigið fram með ásakanir á hendur Weinstein. Hann neitar því alfarið að þau kynferðislegu samskipti sem hann átti við konurnar hafi verið án samþykkis þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×