Erlent

Fyrirskipar endurskoðun á bakgrunnskerfi byssukaupa

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur fyrirskipað endurskoðun á kerfinu sem notað er til að gera bakgrunnskannanir vegna byssukaupa Bandaríkjamanna. Það gerði hann vegna þess að Devin Kelley, sem myrti 26 manns í kirkju í Texas í byrjun mánaðarins, gat keypt byssur þrátt fyrir að vera á sakaskrá fyrir heimilisofbeldi. Ekki liggur fyrir að hann hafi notað þær byssur í fjöldamorðinu.

Í tilkynningu frá Sessions, sem sagt er frá á vef Reuters, segir ráðherrann að Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) og Skrifstofa áfengis, tóbaks, skotvopna og sprengiefna (ATF) myndu gera ítarlega skýrslu um kerfið sem notað er til bakgrunnskannana. Starfsmenn stofnanna myndu svo leggja til hvernig hægt væri að tryggja að þeir sem megi ekki kaupa byssur geti ekki gert það.

Vísir/GraphicNews
Kelley starfaði áður hjá flugher Bandaríkjanna og var hann dæmdur í herrétti fyrir að ráðast á konu sína og stjúpson. Samkvæmt lögum er þeim sem hafa verið dæmdir fyrir heimilisofbeldi meinað að kaupa skotvopn.

Flugherinn gerði hins vegar mistök og kom dómi Kelley ekki inn í umræddan gagnagrunn sem FBI heldur utan um.

Dylann Roof, sem myrti níu manns í kirkju í Charleston fyrir tveimur árum, gat keypt byssuna sem hann notaði í fjöldamorðinu, vegna mistaka FBI og lögreglu sem leiddu til þess að nafn hans hafði ekki verið skráð í umræddan gagnagrunn.

Washington Post sagði einnig frá því í gær að tugir þúsunda manna sem búið væri að gefa út handtökuskipun gagnvart duttu af lista yfirvalda yfir aðila sem mega ekki kaupa byssur. Það var gert eftir að FBI breytti skilgreiningu sinni yfir einstaklinga á „flótta frá yfirvöldum“ fyrr á árinu.



Sú skilgreining nær nú eingöngu yfir aðila sem hafa flúið á milli ríkja í Bandaríkjunum. Það þýðir að aðilar sem eru í felum frá lögreglu en hafa ekki ferðast á milli ríkja, geta þrátt fyrir það keypt byssur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×