Lífið

Natalie Portman opnar sig um lífið í Hollywood: „Ég var hrædd“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Natalie Portman talar á Vulture-hátíðinni.
Natalie Portman talar á Vulture-hátíðinni. Vísir / Getty Images

„Ekkert gerðist. Það var ekki ráðist á mig. Ég sagði: Mér finnst þetta óþægilegt, og það var virt en þetta var alls ekki í lagi. Þetta var óásættanlegt og lymskulega gert. Ég var hrædd,“ sagði leikkonan Natalie Portman í viðtali á Vulture-hátíðinni á Roosevelt-hótelinu í Los Angeles í gær er hún opnaði sig um ásakanir um kynferðislegt ofbeldi á hendur skemmtikröftum vestan hafs.

Hún sagðist vissulega hafa orðið fyrir óviðeigandi hegðun og rifjaði upp eitt slíkt atvik.

„Það var framleiðandi sem bauð mér í einkaþotu með sér og fyrirtæki hans á einhvern stað sem ég var líka að fara á. Og ég hugsaði: Já, af hverju ætti ég ekki að þiggja far í einkaþotu með stórum hópi af fólki? Þegar ég mætti voru þetta bara ég og hann og búið var að búa um eitt rúm í þotunni,“ sagði Natalie. Hún sagði nei við kynferðislegu tilboði framleiðandans og hann virti það svar.

Leikkonan á EMA-hátíðinniVísir / Getty Images

Mismunað og áreitt í öllum verkefnum

Leikkonan, sem er þekkt úr kvikmyndum á borð við Black Swan og Closer, talaði einnig mikið um þær sögur sem hafa komið upp á yfirborðið er varðar kynferðislegt ofbeldi af hálfu þekktra aðila í skemmtanabransanum.

„Fullt af fólki hefur vitað af þessu í alltof langan tíma en það er líka fullt sem við umberum einfaldlega út af því að við erum ónæm fyrir því að þetta sé eitthvað sem fer yfir öll mörk,“ sagði Natalie og lýsti yfir stuðningi sínum við fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis.

„Það er frábært að allir séu loksins að tala um þetta. Fyrstu viðbrögðin mín þegar þetta kom fyrst uppá yfirborðið var að hugsa: Vá, ég er svo heppin að ég hef ekki lent í þessu. En síðan hugsaði ég til baka og fattaði: Ókei, það hefur pottþétt aldrei verið ráðist á mig. Pottþétt aldrei. En mér hefur verið mismunað og ég áreitt í nánast hverju einasta verkefni sem ég hef unnið í. Ég held að allar konur hafi upplifað einhvers konar mismunun,“ sagði leikkonan og tók dæmi.

„Eins og að fólk er búið að vera að gera athugasemdir við líkama minn, alveg síðan ég var barn.“

Eins og sagt hefur verið frá hafa þekktar manneskjur úr skemmtanabransanum verið sakaðar um kynferðislegt áreiti og ofbeldi, eins og Harvey Weinstein, Kevin Spacey, Jeremy Piven og Louis C.K. Þá hafa einnig hundruðir sænskra leikkvenna lýst reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi og áreiti af hálfu yfirmanna sinna og samstarfsfélaga. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×