Dauðsföll 26 einstaklinga eru skráð lyfjatengd í fyrra. Einnig kemur lyfjanotkun við sögu í umferðarslysum og í sjálfsvígum þar sem menn eru undir áhrifum sterkra lyfja.
Landlæknisembættið hefur undanfarinn áratug unnið markvisst að því að ná utan um dreifingu sterkra lyfja í íslensku heilbrigðiskerfi.

Ólafur segir Landlæknisembættið vera að skoða alvarlegustu tilvikin sem koma upp. Sterka lyfið Oxycodone sé eitt varhugaverðasta lyfið á markaði í dag og mikil aukning hafi orðið í notkun þess.
„Það er erfitt að segja til um það hvort vinna okkar sé að skila árangri en tvennt gæti gefið tilefni til þess. Dauðsföllum vegna lyfjanotkunar hefur farið fækkandi og einstaklingar hafa verið stöðvaðir á leið til landsins með lyf sem þessi í farteskinu. Það gefur okkur vísbendingar um að erfiðara sé að nálgast þessi efni í íslensku heilbrigðiskerfi en áður,“ bætir Ólafur við.
Það eru læknar starfandi sem hafa ekki leyfi til að ávísa ávanabindandi lyfjum. Einnig staðfestir Ólafur að læknar hafi misst leyfi vegna þessa. Einnig hafa læknar misst leyfi vegna eigin óreglu eða veikinda.
„Mest er sótt í verkjalyf. Langstærsti vandinn, eins og komið hefur fram, er Parkódín forte. Einnig höfum við miklar áhyggjur af ávísunum á OxyContin sem hefur verið til mikilla vandræða í Bandaríkjunum,“ segir Ólafur. Í fyrra kom það lyf fyrir tengt fjölda dauðsfalla hér á landi.