Hjón sem búa við Heiðvang í Hafnarfirði kærðu Garðabæ vegna áformanna um að loka vegtengingu. Eins og fram kom í Fréttablaðinu 20. nóvember telja hjónin breytinguna verulega íþyngjandi fyrir íbúa hverfis síns.
„Þetta veldur því að umferð um hverfi kæranda verður þyngri og erfiðari þar sem lokað er á mikilvæga tengingu milli samfélaga,“ segir í kæru hjónanna.

„Viljum við undirritaðir fasteignaeigendur og íbúar við gamla Álftanesveginn skora á bæjarstjórn að hvika hvergi frá samþykktum um lokun vegarins,“ segir í bréfi Prýðishverfinga. Segja þeir að styr hafi staðið um veginn út á Álftanes um árabil en ágreiningslaust hafi verið að vegurinn væri stórhættulegur þar sem hann var.
„Hinn gamli Álftanesvegur stendur enn óbreyttur og er enn þá stórhættulegur vegna mikillar umferðar og hraðaksturs. Er þar fyrst og fremst um að kenna mikilli umferð um veginn til Hafnarfjarðar. Af þessu skapast stórhætta, ekki aðeins fyrir börn að leik í hverfinu heldur einnig fyrir gangandi vegfarendur og aðra umferð, en sjö íbúagötur tengjast veginum,“ segir í áskorunarbréfinu.
Taka íbúarnir 56 fram að þeir hafi reist eða keypt hús á þeirri forsendu að gildandi skipulag og deiliskipulagstillögur stæðust, þar með talið að gamli Álftanesvegurinn yrði lokaður til vesturs. „Um leið og við skorum á bæjaryfirvöld að fylgja eftir skuldbindingum Garðabæjar og gildandi skipulagi viljum við krefjast þess að veginum verði lokað hið fyrsta,“ segir í áskorun Garðbæinga.
Bæjarráð fól Gunnari Einarssyni bæjarstjóra meðferð hvatningarbréfsins en kæra hjónanna í Heiðvangi er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.