Lífið

Svarbláa köngulóin

Stefán Pálsson skrifar
Veggspjalið fyrir HM 2018 í Rússlandi þar sem Yashin ver boltann með einni hönd.
Veggspjalið fyrir HM 2018 í Rússlandi þar sem Yashin ver boltann með einni hönd.
Á dögunum var einkennisplakat heimsmeistarakeppninnar í Rússlandi á næsta ári kynnt við hátíðlega athöfn í Moskvu. Verkið er eftir kunnan myndlistarmann, Igor Gurovich og hefur hlotið góða dóma, en það vísar skýrt til sovéskra félagslegra raunsæisverka þriðja áratugarins. Markmiðið er að endurspegla hreyfingu og orku, en um leið að skapa skýr hugrenningatengsl við rússneska sögu.

Myndin sýnir markvörð og er það aðeins í þriðja sinn í nærri 90 ára sögu HM að sú vanmetna stétt leikmanna fær að prýða veggspjald keppninnar. Og þetta nýjasta plakat markar einnig tímamót að því leyti að það sýnir nafngreindan leikmann: Lev Yashin.

Yashin er einn af risum rússneskrar knattspyrnusögu. Hann var í sigurliði Sovétríkjanna á Ólympíuleikunum 1956, varð Evrópumeistari árið 1960 og hafnaði í öðru sæti í sömu keppni árið 1964. Árið 1963 hlaut hann gullknöttinn, æðstu einstaklingsverðlaun knattspyrnumanna í Evrópu, en enginn annar markvörður hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi.

Þegar fótboltaspekingar finna sér til dundurs að setja saman lista yfir öflugasta lið allra tíma, verður Yashin oft fyrir valinu á milli stanganna. Frægð hans er þeim mun merkilegri í ljósi þess að hann lék á sjötta og sjöunda áratugnum, austan járntjalds og því höfðu vestur-evrópskir fótboltaunnendur lítið af honum að segja. Fáar sjónvarps- eða kvikmyndaupptökur eru til af Yashin í keppni. Orðspor hans byggist því fyrst og fremst á lýsingum sjónarvotta.

Róleg byrjun

Lev litli fæddist í Moskvu árið 1929. Faðir hans var málmsmiður, móðirin starfaði í gúmmíverksmiðju. Fjölskyldan var fátæk og missti hann barnungur móður sína og systur úr berklum. Þegar stríðið braust út flúði fjölskyldan að Volgubökkum þar sem pilturinn lagði sitt af mörkum til stríðsrekstursins með því að vinna í flugvélaverksmiðju frá tólf ára aldri.

Milli langra vinnustunda gaf Yashin sér tíma til að spila fótbolta með verksmiðjuliðinu og vakti snemma athygli sem slyngur markvörður. Honum var boðinn samningur hjá unglingaliði Dinamo Moskvu, einu öflugasta knattspyrnuliði Sovétríkjanna en félagið hafði náin tengsl við öryggislögregluna. Dinamo var kunnasta sovéska liðið á Vesturlöndum eftir fræga keppnisför þess til Bretlandseyja árið 1945 og á sjötta áratugnum var félagið afar sigursælt heima fyrir.

Markvörðurinn ungi náði tveimur leikjum með aðalliði Dinamo um tvítugt, en sat annars á varamannabekknum eða lék með varaliðinu til ársins 1953, þegar hann var 24 ára gamall. Á þeim tíma benti raunar margt til þess að annars konar íþróttaafrek ættu fyrir honum að liggja, en Yashin æfði einnig íshokkí á yngri árum og varð bikarmeistari í þeirri grein sem markvörður Dinamo-liðsins.

Ári eftir að Yashin hafði tryggt sér aðalmarkvarðarstöðuna hjá Dinamo, var hann í fyrsta sinn valinn í sovéska landsliðið. Landsliðið var raunar fremur nýtt af nálinni, þar sem sovésk yfirvöld höfðu lengi vel miklar efasemdir um réttmæti þess að keppa í íþróttum við kapítalískar óvinaþjóðir og sérstaklega voru kommúnistar tortryggnir í garð fótbolta.

Stjórnvöld í Moskvu sneru algjörlega við blaðinu eftir 1950 og tóku að leggja mikla áherslu á keppnisíþróttir. Markmið þeirra var meðal annars að sýna fram á yfirburði sósíalísks þjóðskipulags með velgengni á íþróttavellinum. Sovétríkin mættu til leiks á sínum fyrstu Ólympíuleikum árið 1952 í Helsinki og létu þegar til sín taka.

Fyrir Helsinki-leikana var komið á laggirnar knattspyrnulandsliði undir stjórn þjálfara sovésku meistaranna í CDKA Moskvu (síðar CSKA Moskvu), sem jafnframt lagði til flesta leikmennina. Ekki fór þó betur en svo að lið Sovétríkjanna féll úr keppni í 16-liða úrslitum eftir æsilegt einvígi við Júgóslavíu. Þar sem Júgóslavía Títós tróð um þetta leyti illsakir við Sovétríki Stalíns þótti ósigurinn sérlega niðurlægjandi og var CDKA-liðið í refsingarskyni rekið úr sovésku deildarkeppninni í heilt ár og þjálfarinn sviptur opinberum vegtyllum og orðum.

Heimsfrægð

Þegar kom að næstu Ólympíuleikum, í Melbourne 1956, var Stalín allur. Því var ljóst að leikmönnum og aðstandendum liðsins væri ekki jafn bráð hætta búin ef illa gengi inni á vellinum. Engu að síður lögðu sovésk íþróttayfirvöld ofurkapp á góðan árangur og íþróttamenn landsins fengu langflest verðlaun allra, 37 gullverðlaun komu í þeirra hlut, þar á meðal gullið fyrir knattspyrnukeppnina.

Lev Yashin varði sovéska markið í öllum fjórum leikjum liðsins og fékk aðeins tvö mörk á sig. Sovétmenn fögnuðu innilega, en sigurinn vakti þó takmarkaða athygli. Í fyrsta lagi voru sjónvarpsútsendingar frá Ólympíuleikum rétt að slíta barnsskónum, svo fáir veittu knattspyrnuleikjunum athygli. Í öðru lagi var atvinnumönnum bannað að taka þátt á leikunum, með þeim afleiðingum að lönd Vestur-Evrópu og Suður-Ameríku tefldu fram veikum áhugamannaliðum. Kommúnistaríki Austur-Evrópu héldu því hins vegar fram að þeirra leikmenn væru ekki atvinnumenn og báru því höfuð og herðar yfir önnur lið. Auk Sovétríkjanna komust Júgóslavía og Búlgaría á verðlaunapall í Melbourne.

Það var því ekki fyrr en tveimur árum síðar, á HM í Svíþjóð, að Lev Yashin­ vakti athygli heimsbyggðarinnar. Sovétmenn voru þar í sinni fyrstu úrslitakeppni og lentu í sannkölluðum dauðariðli með Brasilíumönnum, Englendingum og Austurríkismönnum. Fjölda leikja var sjónvarpað víða um lönd og sáu áhorfendur Yashin fara á kostum í tapleik gegn Brasilíu, þar sem hann forðaði sínu liði frá algjörri niðurlægingu. Þó tókst sovéska liðinu að komast upp úr riðlinum á kostnað Englendinga, sem þóttu talsverð tíðindi.

Það var þó ekki bara glæsileg markvarsla Yashins sem hreif áhorfendur, heldur ekki síður valdsmannslegt yfirbragð hans á velli. Á meðan flestir markmenn stóðu þöglir á línunni og biðu eftir að röðin kæmi að þeim, hikaði Yashin ekki við hlaupa út fyrir teiginn ef þurfa þótti og var duglegur að skipa varnarmönnum sínum fyrir. Þá var hann einna fyrstur markvarða til að slá knöttinn frá marki, en áður höfðu markmenn undantekningarlaust reynt að grípa boltann – stundum með klaufalegum

afleiðingum.

Stagbætt ullartreyja

Útlit markvarðarins jók enn á frægð hans. Markmannstreyjur þessara ára voru í ýmsum litum, þótt græni liturinn væri einna vinsælastur. Yashin var á hinn bóginn svartklæddur frá toppi til táar (að menn töldu). Hann hlaut því viðurnefnið „svarta köngulóin“, sem að sögn vísaði til búningsins og þess að hann virtist hafa átta hendur í markinu! Í heimalandinu var Yashin hins vegar kallaður svarti pardusinn. Ef marka má viðtal við ekkju markvarðarins var hins vegar hvort tveggja rangnefni. Að hennar sögn átti Yashin einungis þrjár treyjur á gjörvöllum ferli sínum – sem allar voru svarbláar ullarpeysur sem kona hans hafði það verkefni að þvo og stagbæta.

HM í Síle 1962 urðu sárustu vonbrigðin á ferli Yashins. Sovétmenn töldu sig eiga möguleika á heimsmeistaratitlinum. Liðinu tókst að vinna sinn riðil, en lenti þó í meiri vandræðum en búist hafði verið við og Yashin gerði sig sekan um nokkur óvenjuleg mistök. Þar á meðal fékk hann á sig mark beint úr hornspyrnu – það fyrsta í sögu úrslitakeppni HM sem skorað hafði verið með þeim hætti. Sovétmenn töpuðu því næst fyrir Síle í fjórðungsúrslitum og kenndu sovéskir blaðamenn Yashin um tapið.

Yashin var niðurbrotinn eftir mótið og íhugaði að hætta knattspyrnuiðkun. Bíll hans var ítrekað skemmdur í skjóli nætur og rúður brotnar á heimili hans. Hann datt úr landsliðinu og missti um tíma sæti sitt í liði Dinamo. Síðar tók landið þó að rísa og á árinu 1963 var hann valinn í heimsúrvalið sem mætti Englendingum á Wembley. Stórkostleg frammistaða þar tryggði honum gullknöttinn sama ár og sovéski landsliðsþjálfarinn fékk lítt dulin skilaboð frá æðstu stöðum þess efnis að Moskva vænti þess að Yashin yrði aðalmarkvörður á ný.

Þremur árum fyrr hafði Lev Yashin komið við íslenska knattspyrnusögu með ansi óvæntum hætti. Knattspyrnufélagið Fram hafði nokkru fyrr haldið í keppnisferð til Sovétríkjanna og til að endurgjalda heimsóknina áttu Framarar von á ungmennaliði Dinamo Moskvu til Reykjavíkur. Ekki var talin ástæða til að hafa mikið umleikis vegna unglingaliðs og höfðu kappleikirnir fyrirhuguðu því lítt verið auglýstir og fyrirhugað að láta keppnisflokkinn gista í kojum í Miðbæjarskólanum.

Daginn fyrir komu Sovétmannanna rakst íslenskur íþróttafréttamaður fyrir tilviljun á Dinamo-liðið í Kaupmannahöfn og uppgötvaði að þar var mætt aðalliðið með Yashin í broddi fylkingar. Hringdi hann í dauðans ofboði til Reykjavíkur með fréttirnar. Moskvu-liðið reyndist ofjarl Íslendinga á öllum sviðum og reyndi lítt á markmanninn fræga í kappleikjunum. Stakk Haraldur Steinþórsson, formaður Fram, upp á því við Yashin að Fram og Dinamo hefðu markmannsskipti í viðureign félaganna. Tók Yashin því vel, en sovéska kerfið hafði ekki húmor fyrir slíkri léttúð. Yashin stóð því svarbláklæddur í makindum og fylgdist með sínum mönnum valta yfir Framara 9:0.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.