Skoðun

Koma svo SSH!

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar
Húsnæðismál hafa verið nokkuð í umræðunni að undanförnu, einkum staða þeirra sem verst standa í þeim efnum, fólks sem er beinlínis á götunni. Hópur fólks, líklega 30-40 manns hefur hafst við á tjaldstæðinu í Laugardal við misjafnar aðstæður auk þeirra einstaklinga sem flækjast á milli gistiskýla eða fær inni hjá vinum eða ættingjum um skamma hríð eða langa. Aðstæður þessa hóps eru algerlega óviðunandi. Við sem samfélag getum ekki horft á þessa stöðu aðgerðalaus. Núverandi félagsmálaráðherra hefur sagt að mál þessa hóps séu forgangsmál hjá ráðuneyti hans en fleira þarf að koma til.

Örugg búseta og framfærsla heyra undir sveitarfélögin og er ein af frumskyldum þeirra. Öll sveitarfélög bjóða upp á búsetu í félagslegum íbúðum en afar misjafnt er hversu margar slíkar eru í boði á vegum hvers sveitarfélags. Á höfuðborgarsvæðinu hafa sveitarfélög tekið á þessum vanda með mismunandi hætti, þ.e. bæði með félagslegum íbúðum, en einnig með skammtímaúrræðum í gistiskýlum eða íbúðakjörnum, stundum í samvinnu við félagasamtök.

Vandinn er hins vegar ekki vandamál eins sveitarfélags eða fárra, hann er vandi þeirra allra og þau verða að koma öll að lausninni. Ég tel að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu að koma sér saman um úrræði til handa því fólki sem á í mestum vanda, er beinlínis á götunni. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa með sér samstarf um margs konar þjónustu við íbúana, og ég tel að hér sé tækifæri fyrir þau til slíks. Það getur ekki verið óyfirstíganlegt að leysa bráðasta vandann í sameiningu. Það er ekki ásættanlegt að sveitarfélögin í kringum borgina sitji hjá, þau eiga öll að leggja sitt af mörkum, kostnaðarskiptingamódelin eru þegar til í öðrum félögum. Sveitarfélög sem geta komið sér saman um rekstur skíðasvæða geta áreiðanlega komið sér saman um lausn á bráðasta húsnæðisvandanum. Koma svo SSH!

 

Höfundur er þingmaður VG í Suðvestur kjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×