Skoðun

Hjálp til handa börnum sem sýna árásargirni

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Ekki er óalgengt að börn sýni á einhverjum tíma bernsku sinnar árásargirni í tengslum við skapofsaköst. Oftast er um að ræða stutt tímabil en í sumum tilfellum getur slík hegðun staðið yfir í lengri tíma. Birtingarmyndir árásargirni fara m.a. eftir aldri og þroska. Dæmi um birtingarmyndir árásargirni er að henda hlutum, brjóta eða sparka í hluti, t.d. húsgögn og hurðir, ráðast á foreldra/systkini, lemja, sparka eða bíta. Ef tilfelli eru sjaldgæf þá er frekar um tilfallandi atvik að ræða svo sem að barnið er úrvinda, stressað og illa upplagt. Sé þetta hegðun sem birtist ítrekað og jafnvel án lítils tilefnis eru orsakir líklegast flóknari.

Börn sem sýna ítrekaða árásargirni verða ekki endilega ofbeldisfullir einstaklingar á fullorðinsárum sérstaklega ef gripið er inn í með viðeigandi íhlutun eða breytingum og unnið markvisst að því að hjálpa barninu að slökkva á hegðuninni. Ef gefið er eftir kröfum barnsins og árásargirni þess leyfð að viðgangast eru það skilaboð um að svona hegðun líðist í mótlæti og andstreymi.

Orsakir og áhættuþættir

Orsakir árásargirni og ofbeldishegðunar geta verið af ýmsum toga. Þær geta verið líffræðilegar þegar árásargirni á rót sína að rekja til raskana af einhverju tagi svo sem fráviks í vitsmunaþroska, athyglisbrests með eða án ofvirkni (ADHD) eða annarra raskana. Orsakir geta einnig verið sálfræðilegar eða aðstæðubundnar/félagslegar. Algengt er að um sé að ræða samspil margra þátta. Áhættuþættir eru persónuleikaeinkenni eins og erfiðir skapsmunir, lágt mótlætaþol, þrjóska, slök tilfinningastjórnun, ótti, kvíði og óöryggi. Árásargirni getur verið ein af birtingarmyndum mótþróahegðunar barna. Sum börn ráða illa við að heyra „nei“ ef þau vilja fá eitthvað eða ef þeim eru sett mörk. Sum bregðast illa við ef þeim er ætlað að sinna einhverju sem þau vilja eða nenna ekki að sinna. Undanfari árásargirni er reiði í tengslum við hugsanir um að vera beittur órétti, tilfinning um að vera fórnarlamb og aðrar neikvæðar hugsanir og tilfinningar. Þegar reiðin nær vissu stigi getur barnið orðið stjórnlaust og þá jafnvel árásargjarnt.



Uppeldisaðferðir

Í þessum málum hafa foreldrar iðulega reynt ýmsar uppeldisaðferðir til að mæta skapofsa og árásargirni barns síns og eru þá skammir algengastar, stundum hótanir um réttindamissi eða aðrar afleiðingar. Ítrekaðar skammir tapa fljótt áhrifamætti og auka jafnvel stundum á reiði barnsins. Í öðrum tilfellum eru foreldrar óaðvitandi að styrkja reiði og árásargirni barns síns með því að gefa fljótt eftir kröfum þeirra. Þetta er algengara t.d. í þeim tilfellum sem foreldrar eru orðnir þreyttir eða ráðalausir. Sumir foreldrar eru meðvirkir með barni sínu og vorkenna þeim. Enn aðrir foreldrar kenna sjálfum sér um og finnst þeir ef til vill hafa brugðist sem foreldrar. Foreldrar með sektarkennd gagnvart börnum sínum hafa iðulega minna þrek og úthald til að standast kröfur þeirra. Stundum eru foreldrar einfaldlega hræddir við skapofsa barns síns og árásargirnina og treysta sér þar af leiðandi ekki til að taka á því. Foreldrar sem glíma sjálfir við veikindi treysta sér kannski verr til að neita barni sínu af ótta við ofsafengin viðbrögð þeirra. Svör eins og  „nei/kannski eða sjáum til seinna“ verður „okey þá“ og með því er barnið í raun að fá umbun fyrir að sýna skapofsa og árásargirni. Umbunin að fá sínu framgengt í kjölfar neikvæðrar hegðunar eykur líkur á því að hegðunin endurtaki sig.



Umhverfisþættir

Áhættuþættir skapofsa og árásargirni finnast stundum í umhverfi barnsins t.d. ef aðstæður á heimilinu eru erfiðar. Dæmi um streituvalda í fjölskyldu eru langvinn veikindi eða átök og deilur á heimilinu. Grundvallarbreytingar í lífi barnsins eins og skilnaður foreldra, nýtt foreldri, systkini/stjúpsystkini eða flutningar geta valdið barninu streitu sem síðan brýst út í reiði og árásargirni. Að sama skapi getur orsökin legið í þáttum sem tengjast skólanum, náminu, vinahópnum, tómstundum eða íþróttum.



Aðrar orsakir

Leita má orsaka í fleiri þáttum svo sem hvort barnið sé að fá nægan svefn, hollt mataræði og hreyfingu við hæfi. Allt eru þetta þættir sem eru mikilvægir börnum til að vera í góðu andlegu jafnvægi.

Áhorf ofbeldisefnis hefur einnig verið talið til áhættuþátta árásargirni. Samkvæmt rannsóknum er slíkt þó aðeins um að ræða hjá litlum hópi barna og unglinga. Enn aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að aðeins lítinn hluta af árásargirni er hægt að útskýra með áhorfi á ofbeldi einu og sér. Hvað sem rannsóknum líður er mest um vert að vera meðvitaður um magn og gæði þess efnis sem barnið er að horfa á og hvort reglur um skjátíma séu í samræmi við aldur og þroska barnsins.



Að slökkva á árásargirni

Hjálpa þarf börnum sem beita árásargirni í bræðiskasti að stöðva hegðunina enda líður þeim sjálfum illa með hana. Ræða þarf við barnið í samræmi við aldur og þroska um hegðunina og neikvæðar afleiðingar hennar og fræða þau um hvar mörkin liggja. Samhliða þarf að finna aðrar vænlegar leiðir fyrir þau til að fá útrás fyrir gremju og reiði og til að leysa ágreiningsmál. Fyrirmæli til ungra barna þurfa að vera skýr og einföld. Sum börn meðtaka fyrirmæli betur ef þau eru sett upp með sjónrænum hætti. Börnum gengur einnig iðulega betur að slökkva á neikvæðri hegðun sé umbunar-, réttinda- og styrktarkerfi notað samhliða. Markmiðið er að hjálpa barninu að ná betri tilfinningastjórnun, auka mótlætaþol og úthald. Um leið og þroski leyfir þá þarf að hjálpa barninu að finna til ábyrgðar á eigin hegðun og að skilja að ofbeldi er ekki leið til lausnar.

Aðstoð við börn sem sýna árásargirni er margvísleg m.a. í formi samtala, fræðslu, umbunakerfis, atferlismótandi aðferða og sjálfstyrkingu.

Í tilfellum þar sem barn sýnir mótþróa og árásargirni er vert að kanna hvort gera þurfi breytingar á uppeldisaðferðum eða menningu heimilisins. Til að kanna það nánar er gott að renna yfir helstu atriði:

Eru foreldrar samstíga?

Er ástúð og umhyggja?

Er samvera?

Er fræðsla og samtöl?

Er jákvætt andrúmsloft á heimilinu, hlegið, grín og gaman?

Er veitt umbun við hæfi, hrós og hvatning?

Eru sett mörk, er festa, aðhald og viðeigandi reglur sem hæfir aldri og

þroska barnsins?

Er reglum fylgt eftir?



Önnur úrræði

Foreldrar geta á öllum tímum sótt sér handleiðslu hjá fagaðila eða sótt foreldrafærninámskeið. Ráðgjöf er hægt að fá hjá sálfræðingi Heilsugæslu (ókeypis þjónusta fyrir 0 til 18 ára með tilvísun frá lækni). Einnig eru ráðgjafar í skólum landsins. Upplýsingar um PMTO á landsvísu má fá á www.pmto.is. Upplýsingar um þjónustu sveitarfélaga fæst hjá skóla- eða félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Vinna fagaðila felst í að ræða við foreldra og barnið og leita orsaka/áhættuþátta í umhverfinu til að hægt sé að vinna með þá, laga og breyta því sem breyta þarf. Séu vísbendingar um að rekja megi orsök árásargirni til röskunar eða frávika af einhverju tagi þarf að fá það staðfest með viðeigandi sálfræðilegum greiningartækjum.

Höfundur er sálfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×