Til að mynda lofaði ríkisstjórnin andvirði 7,2 milljarða króna innspýtingu í velferðarkerfið. „Þetta mun hjálpa 250.000 fjölskyldum. Þessar aðgerðir munu gagnast lág- og millistéttarfólki,“ sagði velferðarráðherrann Mohammed Trabelsi eftir fundinn.

Essebsi hefur rétt fyrir sér varðandi fjárhag ríkisins. Þegar arabíska vorið hófst, fyrir sjö árum, var efnahagsástandið á meðal þess sem almenningur var ósáttur við. Atvinnuleysi var mikið og spilling grasseraði. Nú telja mótmælendur að sömu vandamál hrjái ríkið enn. Hryðjuverkaárásir á ferðamannastaði hafi þar að auki gert ástandið verra þar sem þær hafa dregið úr heimsóknum ferðamanna.
Í desember síðastliðnum sagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn túnisku ríkisstjórninni að nauðsynlegt og áríðandi væri að laga halla ríkissjóðs. Sjóðurinn veitti Túnisum þriggja milljarða dala lán fyrir rúmum tveimur árum.
Mótmælaaldan í Túnis reis 7. janúar síðastliðinn eftir að ríkisstjórnin hækkaði skatta. Hefur verið mótmælt á að minnsta kosti tíu svæðum í ríkinu og hefur lögregla handtekið að minnsta kosti 800 mótmælendur en 97 lögreglumenn hafa særst í átökunum.