Erlent

Íbúum Höfðaborgar sagt að skrúfa fyrir klósettkassana

Kjartan Kjartansson skrifar
Meira en helmingur íbúa Höfðaborgar hefur notað meira vatn en yfirvöld hafa mælt með. Hámarkið verður lækkað í næsta mánuði.
Meira en helmingur íbúa Höfðaborgar hefur notað meira vatn en yfirvöld hafa mælt með. Hámarkið verður lækkað í næsta mánuði. Vísir/AFP
Yfirvöld í Höfðaborg í Suður-Afríku hafa hvatt borgarbúa til þess að spara vatn líkt og líf þeirra liggi við. Þeim hefur meðal annars verið ráðlagt að skrúfa fyrir vatn í klósett. Alvarlegur þurrkur er við það að tæma vatnsból borgarinnar.

Fimmtíu lítra hámark á vatnsnotkun tekur gildi í næstu viku. Fram að þessu hefur verið mælst til þess að fólk noti ekki meira en 87 lítra á dag en ekki hafa allir farið eftir því. Áætlað er að manneskja noti um fimmtán lítra á mínútu í sturtu og svipað magn í hvert skipti hún sturtar niður klósettinu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Helen Zille, forseti héraðsstjórnarinnar, segir að ef allir haldi sig innan þeirra marka verði hægt að forðast að skrúfa þurfi fyrir vatn til borgarinnar. Að óbreyttu tæmist vatnsból borgarinnar 12. apríl.

Zille leggur til að borgarbúa nýti vatn úr uppvaski til að fylla á vatnskassa klósetta og að enginn eigi að fara í sturtu oftar en tvisvar í viku.

„Þið þurfið að spara vatn eins og líf ykkar liggi við vegna þess að það gerir það,“ segir hún.

Þurrkurinn sem þjakar Höfðaborg er sá versti í heila öld. Úrkoma hefur verið með minsta móti í þrjú ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×