„Algerlega. Ég starfaði hjá fíkniefnadeild lögreglunnar og það sem maður sá þá fær maður ekki til að aðhyllast slakari stefnu heldur þvert á móti. Það þarf að herða tökin og veita meira fé í að reyna að uppræta þetta,“ segir Snorri í samtali við Vísi.
Birgir Örn Guðjónsson, sem betur er þekktur sem Biggi lögga, skrifaði athyglisverðan pistil á síðu sína þar sem hann, fremur óvænt, boðar að vert sé að huga að lögleiðingu kannabisefna. Biggi segir að við verðum að endurskoða afstöðu okkar.
Óhætt er að segja að pistill Bigga og hugleiðingar hafi fengið lofsamlegar viðtökur. En, Biggi lætur þess jafnframt getið að hann viti til þess að hann eigi ekki marga skoðanabræður í þeim efnum innan lögreglunnar. Snorri telur það rétt metið hjá Bigga.
Lögreglumenn almennt ekki sammála Bigga
„Ég held að þetta sé rétt ályktað hjá honum, með skoðanir í þessum efnum. Við hjá Landssambandi lögreglumanna höfum í sjálfu sér ekki tekið neina afstöðu í þessum efnum. Við horfum bara til laga í landinu og vinnum eftir þeim.“
Snorri bendir á að Reykjavíkurborg sé aðili að samtökum sem heita Europian Citys Against Drugs. Og sú sé meðal annars ástæðan fyrir því að ýmsir borgarfulltrúar hafa látið í sér heyra vegna þessa málaflokks.

Hvað á að leyfa og hvað á að banna?
En, nú hefur komið fram í fréttum að sjaldan sem aldrei hefur verið eins auðvelt að nálgast vímuefni og nú er. Og á sama tíma berast fréttir af því að lögreglan hefur gert upptæk ókjör af kókaíni og eftirspurnin aldrei meiri. Segir það okkur ekki einfaldlega það að rétt sé að endurskoða stefnuna og nálgast vandann úr öðrum áttum? Snorri segir að þetta sé ekki einfalt og gallinn sé sá að ekki hafi farið fram nein umræða um þetta sem heitið getur.
„Hún er einhvern veginn alltaf þannig að það eigi að leyfa kannabisefni. En, þá má velta þessu fyrir sér frá öðrum sjónarhóli. Hvað segir amfetamínfíkillinn þá? Kókaínfíkillinn? Hvar stoppum við? Það hafa verið gerðar tilraunir með svona efni í Sviss eða Austurríki. Heróín orðið stórkostlegt vandamál í borgum í Evrópu líka. Þetta er ekkert svona einfalt í afgreiðslu.“
En, við gætum þá horft á þetta úr enn einni áttinni, sem er þá að ganga í hina áttina og bannað áfengi?
„Jú, það er hluti umræðunnar líka. Þessari stóru mynd sem við blasir, hvaða vímuefni á að banna og leyfa og af hverju? Þessi umræða hefur ekki verið tekin, hvorki hér á landi né víða erlendis,“ segir Snorri Magnússon.