Erlent

Óvissan ríkir áfram í Katalóníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá samstöðufundi í Barcelona þar sem fólk var með grímur af andliti Carles Puigemont.
Frá samstöðufundi í Barcelona þar sem fólk var með grímur af andliti Carles Puigemont. Vísir/AFP
Óvissa ríkir enn í Katalóníu eftir að Roger Torrent, forseti þings héraðsins, ákvað að fresta atkvæðagreiðslu um að gera Carles Puigdemont að forseta héraðsstjórnarinnar. Torrent hét því þó að gera Puigdemont að forseta seinna en stjórnlagadómstóll Spánar hefur úrskurðað að Puigdemont, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu, geti ekki orðið forseti aftur.

„Spænska ríkisstjórnin og stjórnlagadómstóllinn eru að reyna að brjóta á rétti þúsunda Katalóna sem kusu þann 21. desember og við munum ekki leyfa það,“ sagði Torrent.

Puigdemont flúði til Belgíu skömmu eftir að ríkisstjórn Spánar vék honum úr starfi í október. Það var gert eftir þjóðaatkvæðagreiðslu í Katalóníu sem ríkisstjórn Spánar segir hafa verið ólöglega. Héraðsstjórn Katalóníu var leyst upp og Madríd tók yfir stjórn héraðsins.

Snúi Puigdemont aftur til Spánar verður hann handtekinn.

Aðskilnaðarsinnar hlutu þó aftur meirihluta í kosningum í Katalóníu í desember og vilja þeir gera Puigdemont aftur að forseta og stóð til að gera það í dag. Stjórnlagadómstóll Spánar úrskurðaði um helgina að Puigdemont yrði að vera á þinginu til að geta orðið forseti héraðsstjórnarinnar.

Torrent hefur þó frestað atkvæðagreiðslunni um óákveðinn tíma. Hann sagðist hafa tekið þá ákvörðun til að tryggja að hægt væri að gera Puigdemont forseta með áhrifaríkari hætti. Þá þvertók hann fyrir að annar en Puigdemont kæmi til greina.

Ríkisstjórn Spánar fagnaði þessari ákvörðun og sagði hana komið í veg fyrir að gert yrði grín að lýðræði Spánar. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, sagði í sjónvarpi í dag að ómögulegt væri að vera „flóttamaður í Belgíu og búast við því að geta orðið forseti lýðræðislegrar stofnunar“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×