Tveir kappsfullir drengir voru á dögunum að útbúa stórt snjóhús þegar blaðamaður og ljósmyndari rákust á þá. Drengirnir heita Ísak Einir Magnússon og Gunnar Dagur Einarsson og eru báðir tólf ára, að verða þrettán. Þeir segja snjóhúsagerð vera áhugamál.
Ísak Einir: Við höfum búið til lítil snjóhús áður en þau hafa aldrei orðið að neinu, þannig séð. En þetta var svo tilvalinn skafl. Einn vinur okkar, Jónas Orri, á eiginlega hugmyndina, enda býr hann næst skaflinum.
Gunnar Dagur: Við Jónas Orri voru bara að labba hérna og sáum skaflinn, bjuggum til dyr og grófum smá og svo kom Ísak Einir með okkur. Jónas Orri er bara á badmintonæfingu núna, annars væri hann hér.
Hvað á húsið að verða stórt?
Ísak Einir: Ég veit það ekki. Við munum bara halda áfram þar til við getum ekki meira. Þetta er svo gaman.
En er ekki erfitt að koma snjónum frá?
Gunnar Dagur: Við höfum stóra skóflu til þess. Notum minni skóflur í gröftinn og þegar við erum búnir að losa snjó í dálitlar hrúgur notum við stóru skófluna til að koma snjónum út.
Ísak Einir: Já, í ákveðinn tíma erum við bara að grafa, grafa og grafa. Svo kemur að því að við losum okkur við snjóinn og berum hann út.
Ætlið þið að sofa í húsinu?
Gunnar Dagur: Ég veit ekki, það gæti verið.
Ísak Einir: Við þurfum bara að setja upp fána til að tryggja að menn komi ekki á snjóýtum og ryðji húsinu okkar í burtu.
Gunnar Dagur: Það væri ekki gott að vera sofandi og allt hryndi.
Eruð þið oft að leika ykkur úti?
Ísak Ernir: Já, já, við erum dálitlir útikarlar.
Gunnar Dagur: Við erum samt eiginlega meira inni núna en úti þegar við erum að grafa.
Eru þetta mörg herbergi?
Ísak Einir: Við erum með sérstaka geymslu fyrir töskurnar okkar og fleira dót og þar inni er lítið hólf fyrir snjógleraugu.
Gunnar Dagur: Svo verður hitt bara eitt risastórt rými. Planið okkar er að setja sprittkerti á víð og dreif.
Þurfum bara að setja upp fána
Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
