Nýtt gervigras verður lagt á Samsung-völlinn, aðalfótboltavöll Stjörnunnar, núna í vor. Verkið hefur verið boðið út og var auglýst um helgina. Tilboð í verkið skulu hafa borist 28. febrúar.
Athygli vekur að nýja gervigrasið á að vera komið á Samsung-völlinn eigi síðar en 19. apríl. Aðeins níu dögum síðar tekur Stjarnan á móti Keflavík í 1. umferð Pepsi-deildar karla. Sæmundur Friðjónsson, formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar, hefur engar áhyggjur af því að tíminn þarna á milli sé of stuttur.
„Við gerum væntingar um að verkinu verði lokið þarna,“ segir Sæmundur í samtali við Fréttablaðið. Hann segir að það hafi staðið til í nokkurn tíma að leggja nýtt gervigras á Samsung-völlinn.
„Það hefur verið nokkuð ljóst síðan síðasta gras var lagt 2012 að við þyrftum að skipta um eftir einhvern tíma. Og nú er komið að því,“ segir Sæmundur en gervigras var fyrst lagt á Samsung-völlinn 2004.
En er þessi ákvörðun, að skipta um gervigras, tekin vegna þátttöku Stjörnunnar í Evrópukeppni?
„Gervigras þarf alltaf að uppfylla ákveðnar kröfur. Það fer reglulega í prófun. Kröfurnar eru alltaf að verða meiri og meiri,“ segir Sæmundur. Að hans sögn er gervigrasið á Samsung-vellinum, sem var lagt fyrir sex árum, enn nothæft og engin slysahætta af því. Það sé einfaldlega kominn tími til að endurnýja gervigrasið sem er jafnan í mikilli notkun.
Sæmundur segir að leikmenn eigi ekki þurfa tíma til að venjast nýja gervigrasinu áður en það verður byrjað að spila á því.
„Er þetta ekki eins fyrir alla? Það er nýtt gras í Kórnum. Menn þurfa engan aðlögunartíma myndi ég halda,“ segir Sæmundur sem bíður spenntur eftir fyrsta heimaleik Stjörnunnar í sumar, á nýja gervigrasinu sem verður fyrsta flokks.
„Það verður nýtt og glæsilegt gervigras með öllu sem því fylgir,“ segir Sæmundur og tekur fram að vökvunarkerfi sé ekki hluti af þessu útboði.
„Við væntum þess að vökvunarkerfi muni bætast við á næstu misserum,“ segir Sæmundur að endingu.
Íslenski boltinn