Menning

Hjarta þjóðarinnar slær á Þingvöllum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Myndir meistaranna njóta sín afbragðsvel í Listasafni Reykjanesbæjar og þar fá þær að vera fram í miðjan apríl.
Myndir meistaranna njóta sín afbragðsvel í Listasafni Reykjanesbæjar og þar fá þær að vera fram í miðjan apríl.
„Það var snemma á síðasta ári sem við ákváðum að láta eina af sýningum þessa árs hverfast um fullveldisafmælið. Þá kom Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur með þá snilldarhugmynd að fá lánuð verk hjá honum Sverri Kristinssyni fasteignasala, sem er mikill safnari. Fyrir valinu urðu forkunnarfallegar Þingvallamyndir, enda slær hjarta þjóðarinnar á Þingvöllum,“ segir Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar um Hjartastað, sýningu sem opnuð hefur verið í listasafni bæjarins.

Valgerður segir verkin eftir sautján listmálara, bæði þá sem þjóðin þekkir best eins og Kjarval, Ásgrím, Þórarin B. Þorláksson, Jón Stefánsson, Jóhann Briem, Jón Þorleifsson, og Eirík Smith en líka aðra sem ekki hafa verið jafn áberandi í sýningarsölum til þessa. „Einn þeirra er Gísli Jónsson, sem var fæddur 1878 og dó 1944. Það er mikil heiðríkja yfir myndunum hans og þær vöktu hvað mesta athygli við opnunina, fólk hafði ekki séð verk hans áður.“

Sýningin Hjartastaður verður í Duushúsum fram í miðjan apríl og á tímabilinu verða þar nokkrir viðburðir tengdir henni. Þar má nefna leiðsögn og gjörning á Safnahelgi á Suðurnesjum 10. og 11. mars og fræðslukvöld með bæði sögu-og myndlistarfyrirlestrum, gjörningi leikfélagsins um árið 1918 og tónlist.

Vegleg sýningarskrá hefur verið gefin út um sýninguna Hjartastað. Þar fjallar Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur um gildi Þingvalla fyrir íslenska myndlist og Birgir Hermannsson, lektor við HÍ, fer orðum um tengsl Þingvalla við íslenska þjóðmenningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×