Erlent

Faðir þolanda Nassars er laus allra mála

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Randall Margraves, faðir þolanda, réðst að Larry Nassar. Saknsóknari hyggst ekki ákæra Margraves.
Randall Margraves, faðir þolanda, réðst að Larry Nassar. Saknsóknari hyggst ekki ákæra Margraves. Vísir/Getty
Randall Margraves, faðir stúlku sem læknirinn Larry Nassar braut á, er laus allra mála og verður ekki ákærður fyrir að hafa misst stjórn á sér og ráðist að Nassar á meðan á réttarhöldunum yfir honum stóðu. Í dag barst tilkynning frá embætti saksóknara í Michigan þar fram kom að ekki stæði til að ákæra Margraves

Margrave vakti heimsathygli í upphafi mánaðar þegar hann gerði tilraun til að ráðast á Nassar sem í skjóli starfs síns sem læknir ríkisháskólans í Michigan og sem læknir bandaríska fimleikasambandsins misnotaði hundruð stúlkna að því er fram kemur á vef NBC.

Um það leyti sem önnur af tveimur dætrum Margraves greindi frá hræðilegri reynslu sinni af misnotkun Nassars lét faðirinn í bræðiskasti til skarar skríða. Í fyrstu bað hann dómarann um veita sér fáeinar mínútur í einrúmi með Nassar en þegar þeirri beiðni var hafnað hjólaði Margraves í hinn ákærða. „Hleypið mér í þennan skíthæl!“ öskraði Margraves þegar lögreglumennirnir í réttarsalnum reyndu að yfirbuga hann. 



Ákvörðun Janice Cunningham, dómara, hafði áhrif á afstöðu saksóknara.visir/getty
Janice Cunningham, dómari, veitti Margraves áminningu í stað þess að ákæra hann fyrir að sýna dómnum lítilsvirðingu í ljósi þess að Margraves hafi beðist afsökunar á framferði sínu. Í yfirlýsingu saksóknarans kemur fram að ákvörðun dómarans hafi spilað inn í ákvörðun embættisins.

Margir álíta Margraves sem hetju og finna til með honum en í hans nafni söfnuðust tuttugu og fimm þúsund dollarar fyrir lögfræðikostnaði sem hefði getað fallið til vegna málsins. Margraves lét aftur á móti upphæðina sem safnaðist renna til samtaka sem starfa í þágu þolenda kynferðislegs ofbeldis.

Margraves er því laus allra mála, öfugt við Nassar því refsingin sem honum hefur verið gerð hljóðar samanlagt upp á allt að 360 ára fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×