Erlent

Ísraelsk herþota skotin niður í Sýrlandi

Þórdís Valsdóttir skrifar
Þotan var skotin niður og brak hennar hrapaði í Ísrael.
Þotan var skotin niður og brak hennar hrapaði í Ísrael. vísir/afp
Ísraelsk herþota af gerðinni F-16 var skotin niður í dag í sýrlenskri lofthelgi. Ísraelsmenn svöruðu fyrir sig með því að gera loftárásir á í það minnsta tólf írönsk og sýrlensk skotmörk í Sýrlandi. Þetta kemur fram í frétt NBC.

Ísraelsher hafði áður skotið niður íranskan dróna sem var innan lofthelgi Ísraels. Talsmenn Ísraelshers segja að vera drónans innan lofthelgis landsins hafi verið alvarlegt brot gegn fullveldi Ísraels. 

Þotan var á leið úr árásarferð í Sýrlandi þegar hún var skotin niður. Tveir flugmenn voru um borð í F-16 þotunni og náðu þeir báðir að skjóta sér úr þotunni og lentu á ísraelsku yfirráðasvæði, í Gólanhæðum. Flugmennirnir voru báðir fluttir á sjúkrahús og er annar þeirra alvarlega slasaður.

"Þetta er alvarleg árás Írans á ísraelskt yfirráðasvæði. Íran er að draga héraðið inn í hættuspil sem ekki er hægt að segja til um hvernig mun enda,“ sagði Ronen Manelis talsmaður Ísraelshers og bætti við að sá sem bar ábyrgð á árásinni mun gjalda fyrir hana. 

Spennan við norðanverð landamæri Ísraels og Sýrlands hefur aukist mikið síðustu mánuði og stjórnvöld í Sýrlandi segja að Ísraelsk stjórnvöld sýni mikinn árásarhug eftir þær tólf árásir sem Ísraelsher gerði innan Sýrlands í kjölfar þess að F-16 þotan var skotin niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×