Kólumbía Kólumbíski stjórnmálaflokkurinn FARC, áður samtök uppreisnarmanna, tilkynnti í gær um að kosningabarátta flokksins fyrir forseta- og þingkosningar hefði verið sett á ís af öryggisástæðum. Var það gert vegna þess að mótmælendur hafa ítrekað truflað baráttufundi frambjóðenda og jafnvel komið í veg fyrir þá.
Flokkurinn var stofnaður í fyrra eftir að hersveitir FARC lögðu niður vopn í kjölfar friðarsamninga við ríkisstjórnina. Markaði það endalok 52 ára langs stríðs á milli FARC og kólumbíska ríkisins.
Samkvæmt Reuters er mikill fjöldi Kólumbíumanna afar ósáttur við flokkinn enda voru FARC-liðar alræmdir fyrir mannrán og sprengjuárásir í stríðinu. Stuðningur við flokkinn mælist tvö prósent í könnunum en flokksmenn hafa einna helst talað fyrir því að útrýma fátækt.
„Eins og er höfum við ákveðið að fresta öllum samkomum þar til hægt verður að tryggja öryggi frambjóðenda og starfsmanna. Við biðlum til annarra flokka um að hafna alfarið ofbeldi og mótmælum sem þessum,“ sagði Pablo Catatumbo, leiðtogi flokksins, í gær.
Stuðningur við forsetaframboð FARC-liðans Rodrigo Londono mælist enn minni, eða 1,6 prósent í nýrri könnun kólumbíska tímaritsins Semana.
Mestur stuðningur mælist við framboð Gustavo Petro, fyrrverandi borgarstjóra Bogotá.
Erlent