Forseti Afganistan, Ashraf Ghani, hefur ákveðið að viðurkenna Talíbana sem lögmæt stjórnmálasamtök í viðleitni til að binda enda á stríð sem hrjáð hefur landið í sextán ár. Telst þetta nokkur stefnubreyting hjá forsetanum en hann hefur áður vísað til Talíbananna sem hryðjuverkamanna og uppreisnarmanna. Guardian greinir frá.
Talíbanarnir voru hraktir frá völdum í innrás Bandaríkjanna í Afganistan árið 2001. Talíbanarnir hafa áður samþykkt viðræður við Bandaríkin en hafa hingað til neitað beinum viðræðum við stjórnvöld í Kabúl. Talíbanar berjast sem fyrr fyrir því að íslömsku veldi verði komið á í Afganistan.
Ghani hefur stungið upp á vopnahléi og að föngum myndi verða sleppt, nöfn þeirra hreinsuð af alþjóðlegum svörtum listum og þeir aðstoðaðir við atvinnuleit. Í kjölfarið væri hægt að boða til kosninga.
Á móti kæmi þó að Talíbanar þyrftu að viðurkenna stjórnvöld í Kabúl sem lögmæt stjórnvöld Afganistan. Vaxandi þrýstingur er innan alþjóðasamfélagsins sem og frá nágrannaríkjum að samið verði um frið í Afganistan.
