Á opnum fundi með fulltrúum beggja flokkanna á Bandaríkjaþingi sagðist forsetinn opinn fyrir því að hækka aldurstakmörk fyrir kaup á tilteknum byssum og að lögreglumenn geti gert skotvopn upptæk á meðan sakamál eru til meðferðar í dómskerfinu.
Byssuvinir eru ekki hrifnir af þessum hugmyndum og segja þær vera „heimskulegar“ og „svik“ við kjósendahóp sem staðið hafi þétt við bakið á Trump.
Sjá einnig: Trump hvetur þingmenn til að endurskoða skotvopnalög
„Þetta er heimskulegasta hugmynd sem ég hef nokkurn tímann heyrt,“ segir Joe Biggs, meðlimur í NRA og ritstjóri íhaldsmiðilsins Rogue Right. „Ég vona að þetta hafi bara verið tímabundin heimska, dómgreindarbrestur. Ég vona að einhver hafi dregið hann á bakvið og sagt: „Þú varst rétt í þessu að missa helming kjósenda þinna með því að segja eitthvað svona heimskulegt.““
Á fyrrnefndum fundi talaði Trump einnig fyrir frumvarpi sem gerði ráð fyrir ítarlegri bakgrunnskoðunum á byssukaupendum. Það virðist þó hafa verið hugmynd Trumps um að lögreglumenn geti gert skotvopn upptæk sem fór mest fyrir brjóstið á byssueigendum. Það sé ekkert annað en stjórnarskrárbrot.
Mun kjósa einhvern annan næst
„Þú heldur allt þitt líf að það verði Demókratar sem taki byssurnar þínar,“ er haft eftir Biggs á vef Guardian. „En síðan heyrirðu Trump forseta segja: „Ó, við ætlum að taka byssurnar af þér áður en málið þitt fer sína leið í réttarkefinu.““Ritstjórinn er svo æfur að hann hyggst kjósa einhvern annan en Trump árið 2020 ef forsetinn keyrir þessar breytingar í gegn.
Annar háttsettur meðlimur NRA, Dave Kopel, er einnig trylltur. „Það er reyndar ekkert sérstaklega furðulegt að hann svíki kjósendur sína,“ segir Kopel sem telur að meirihluti hinna 5 milljón meðlima NRA séu gríðarlega ósáttir. „Hvert einasta orð voru svik.“
Talsmaður NRA tók í sama streng í viðtali við Fox News. Fundur forsetans hafi verið „gott sjónvarp en léleg stefnumörkun.“