Erlent

Stjórnarliðar streymdu inn í Austur-Ghouta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stjórnarhermaður í Austur-Ghouta í gær.
Stjórnarhermaður í Austur-Ghouta í gær. Vísir/afp
Önnur daglega fimm klukkustunda pásan á átökunum í Austur-Ghouta, nærri höfuðborginni Damaskus í Sýrlandi, stóð ekki undir nafni frekar en sú fyrsta. Að því er heimildarmenn Reuters úr herbúðum stjórnarliða og uppreisnarmanna herma gerðu stjórnarliðar áhlaup á svæðið á jörðu niðri í von um að taka landsvæði af uppreisnarmönnum. Árásarhrina fylgismanna Bashars al-Assad Sýrlandsforseta, sem hófst á sunnudag fyrir rúmri viku og hefur kostað hundruð lífið, hefur hingað til að mestu farið fram úr lofti.

Enn bólar ekkert á innleiðingu þrjátíu daga vopnahlésins sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktaði um á laugardaginn og er með öllu óljóst hvenær og hvernig það verður innleitt.

Öfugt við pásu þriðjudagsins voru hins vegar engar loftárásir gerðar í pásu gærdagsins. Þetta fullyrtu eftirlitssamtökin Syrian Observatory for Human Rights. Hins vegar héldu loftárásir áfram eftir pásuna.

Þrátt fyrir að Rússar, helstu bandamenn Assad-stjórnarinnar, hafi fyrirskipað pásurnar og sagt þær til þess fallnar að hleypa hjálparsamtökum inn á svæðið og almennum borgurum út hefur engin hjálp borist til þeirra hundraða þúsunda sem eru innlyksa, að því er Reuters greinir frá.




Tengdar fréttir

Árásirnar hættu ekki

Fyrsta daglega pásan á átökunum í Austur-Ghouta gagnaðist engum. Rússar segja engan hafa flúið. Assad-liðar og uppreisnarmenn benda hvorir á aðra.

Hryllingurinn heldur áfram í Sýrlandi

Sprengjum rigndi enn á íbúa Austur-Ghouta í gær og fórust tugir. Öryggisráðið ræðir um þrjátíu daga vopnahlé. Stríðið í Sýrlandi verður sífellt flóknara og fleiri aðilar dragast inn í átökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×