Að minnsta kosti 40.000 manns voru á mótmælunum sem reyndust vera þau fjölmennustu frá falli kommúnismans. Þess er krafist að forsætisráðherra landsins, Robert Fico, stígi til hliðar. Hann, ásamt ríkisstjórn, hafi ekki náð að uppræta meinta spillingu en nánir samstarfsmenn forsætisráðherrans eru bornir þungum sökum í fréttinni.
Blaðamaðurinn Jan Kuciak og unnusta hans Martina Kusnirova fundust látin á heimili þeirra þann 25 febrúar. Kuciak vann að frétt um spillingu í stjórnmálastéttinni þegar hann var skotinn til bana ásamt unnustu sinni.
Fréttin sem Kuciak vann að tengir innlend stjórnvöld við ítölsku mafíuna. Í fréttinni er því haldið fram að ítalskir kaupsýslumenn, með tengsl við ítölsku mafíuna 'Ndrangheta, hafi komið sér fyrir í fátæku héraði í austurhluta Slóvakíu. Þar hafi þeir árum saman dregið sér fé frá Evrópusambandinu. Þá er því einnig haldið fram að kaupsýslumennirnir hafi ræktað tengsl við háttsetta embættismenn, þar á meðal nána samstarfsmenn forsætisráðherra, Robert Fico.
Fréttin hans sem var þó ekki fullunnin var birt eftir dauða hans seint í febrúar. Hún varpar sem fyrr segir ljósi á spillingu í efri lögum samfélagsins í Slóvakíu og hefur frétt blaðamannsins helsta ástæða þess að fólkið hélt út á göturnar til að mótmæla.
Nokkrir þeirra sem nefndir voru í frétt Kuciaks voru handteknir en þeim var seinna sleppt. Engin ákæra hefur verið lögð fram í málinu enn sem komið er.
Í myndskeiðinu að neðan er myndefni frá útför blaðamannsins Jans Kuciak frá fréttastofu AFP.