Erlent

Puigdemont er sagður hafa stungið af til Belgíu

Þórdís Valsdóttir skrifar
Puigdemont kom til Finnlands á fimmtudaginn í boði finnskra þingmanna. Þingmaðurinn Mikko Kärnä greindi frá því á Twitter að Puigdemont sé farinn frá Finnlandi.
Puigdemont kom til Finnlands á fimmtudaginn í boði finnskra þingmanna. Þingmaðurinn Mikko Kärnä greindi frá því á Twitter að Puigdemont sé farinn frá Finnlandi. vísir/afp
Carles Puigdemont fyrrum forseti heimastjórnar Katalóníu er sagður vera farinn frá Finnlandi til Belgíu. Spænsk stjórnvöld fóru fram á það við finnsk stjórvöld í gær að Puigdemont yrði handtekinn þar en í gildi er alþjóðleg handtökuskipun á hendur fyrrum forsetanum. Hann hefur verið í útlegð í Belgíu að undanförnu.

Finnski þingmaðurinn Mikko Kärnä greindi frá því á Twitter að Puigdemont hafi farið frá Finnlandi í gærkvöldi en Puigdemont var í Finnlandi í boði hans. Lögmaður Puigdemont hafði áður greint frá því að fyrrum forsetinn myndi gefa sig fram við finnsku lögregluna.

„Við ræddum möguleika á handtöku við forsetann yfir hádegismat í gær. Hann var meðvitaður um það að ef Spánn gæfi út handtökuskipunina þá hefði hann tvo kosti: að gefa sig fram við yfirvöld og leyfa finnska réttarkerfinu að úrskurða um mögulega handtöku og framsal. Hinn kosturinn var að fara frá Finnlandi til Belgíu, þar sem mál hans er nú þegar í skoðun og þar sem hann býr,“ sagði Kärnä á Twitter, en Puigdemont hefði átt að vera í Finnlandi þar til í dag.

Um 25 aðskilnaðarsinnar hafa verið ákærðir eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu síðastliðinn október, en spænskir dómstólar úrskurðuðu atkvæðagreiðsluna ólöglega. Spænska ríkisstjórnin svipti Katalóníu sjálfræði í kjölfarið og tók yfir stjórn héraðsins.

Eftir að fregnir bárust af því að mennirnir hafi verið ákærðir, meðal annars fyrir fjárdrátt og óhlýðni gegn ríkisvaldinu, hófust fjölmenn mótmæli í Katalóníu. Brot mannanna geta varðað allt að þrjátíu ára fangelsisrefsingu.

Fleiri en tuttugu mótmælendur særðust í mótmælunum í gær en aðskilnaðarsinnar höfðu skipulagt mótmælin áður en ákærur á hendur mönnunum 25 voru gefnar út. Svo virðist sem ákærurnar hafi hleypt kappi í mótmælin.


Tengdar fréttir

Puidgemont hættir við

Carles Puidgemont, leiðtogi aðskilnaðarsinna Katalóna hefur tilkynnt að hann sækist ekki lengur eftir því að verða aftur útnefndur forseti Katalóníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×